Erlent

Vill greiða sex milljarða tryggingu til að losna úr haldi

Samúel Karl Ólason skrifar
Sean „Diddy“ Combs virtist ánægður með niðurstöðu kviðdómenda í upphafi júlí.
Sean „Diddy“ Combs virtist ánægður með niðurstöðu kviðdómenda í upphafi júlí. AP/Elizabeth Williams

Sean Combs, sem er ef til vill betur þekktur undir listamannsnafninu Diddy, hefur farið fram á það við dómara að honum verði sleppt úr haldi fram að dómsuppkvaðningu. Hann myndi greiða fimmtíu milljónir dala í tryggingu en hann var í upphafi mánaðarins sakfelldur í tveimur ákæruliðum af fimm í mansalsmáli gegn honum.

Combs var sakfelldur í tveimur ákæruliðum af fimm en hann var sýknaður af alvarlegustu ákærunum fyrir skipulagða glæpastarfsemi og mansal.

Sjá einnig: Diddy sakfelldur í tveimur af fimm ákæruliðum

Combs hefur ítrekað farið fram á að honum verði sleppt úr haldi. Dómari hafnaði kröfu síðast þann 2. júlí, daginn sem Combs var sakfelldur, og sagði að fortíð hans og það að hann hafi beitt heimilisofbeldi gegnum tíðina sýndi að hann gæti verið hættulegur.

Lögmaður Combs, sem lagt hefur fram nýja kröfu um að honum verði sleppt, segir aðstæður í fangelsinu sem hann situr í í Broooklyn, séu hættulegar og að aðrir menn sem sakfelldir hafi verið fyrir sambærileg brot hafi fengið að ganga lausir gegn tryggingu fyrir dómsuppkvaðningu, samkvæmt frétt New York Times.

Áður hafði lögmaður Combs lagt til milljón dala tryggingargreiðslu en nú hefur hann stungið upp á fimmtíu milljónum.

Sjá einnig: Combs á­fram í gæslu­varð­haldi

Dómsuppkvaðningin á að fara fram þann 3. október næstkomandi. Þá samsvara fimmtíu milljónir dala um sex milljörðum króna. Combs myndi leggja glæsihýsi sitt í Miami fram sem tryggingu.

Sagður hafa íhugað að náða Combs

Hefði Combs verið sakfelldur í alvarlegustu ákæruliðunum hefði hann staðið frammi fyrir lífstíðarfangelsi. Nú stendur hann frammi fyrir allt að tuttugu ára fangelsisvist en hann fagnaði í dómsal þegar niðurstaða kviðdómenda varð ljós.

Combs hefur setið í varðhaldi frá því hann var handtekinn í september í fyrra.

Deadline hefur eftir heimildarmanni úr ríkisstjórn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, að innan veggja Hvíta húsins hafi verið íhugað hvort Trump myndi náða Combs fyrir dómsuppkvaðninguna. Um tveir mánuðir eru síðan Trump sagði fyrst að það kæmi til greina.


Tengdar fréttir

Diddy ætlar ekki að bera vitni

Réttarhöld yfir rapparanum Sean Combs, einnig þekktur sem P Diddy, hafa nú staðið yfir í sjö vikur en er farið að sjá fyrir endann á þeim. Verjendur rapparans ætla ekki að kalla til nein vitni en rúmlega þrjátíu manns hafa nú þegar borið vitni í málinu. Combs sagðist sjálfur ekki ætla bera vitni.

Sagði Diddy hafa nauðgað sér

Fyrrverandi aðstoðarkona Sean Combs, sem er gjarnan kallaður „Diddy“, segir hann hafa nauðgað sér og misþyrmt yfir átta ára tímabil þar sem hún vann fyrir hann. Hún segir meðal annars að hann hafi nauðgað henni á heimili hans árið 2010 og hann hafi þar að auki margsinnis brotið beitt hana ofbeldi.

Sagði „Diddy“ hafa hótað að láta hana hverfa

Söngkonan Dawn Richard sagði í dómsal í dag að tónlistarmaðurinn Sean „Diddy“ Combs hefði hótað því að myrða hana. Það myndi hann gera ef hún segði einhverjum frá því að hún hefði séð hann ganga í skrokk á Casöndru Venture eða „Cassie“, fyrrverandi kærustu hans til langs tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×