Erlent

Svíar líta til kjarn­orku­vopna

Samúel Karl Ólason skrifar
Ulf Kristersson segir Svía eiga í viðræðum um kjarnorkuvopn við Breta og Frakka.
Ulf Kristersson segir Svía eiga í viðræðum um kjarnorkuvopn við Breta og Frakka. EPA/OLIVIER MATTHYS

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að ríkisstjórn hans hafi átt í grunnviðræðum við yfirvöld Í Bretlandi og í Frakklandi um mögulegt samstarf á sviði kjarnorkuvopna. Ummælin þykja benda til þess að ráðamenn í Evrópu telji sig geta mögulega ekki reitt sig á vernd Bandaríkjanna.

Í viðtali við sænska ríkisútvarpið, SVT, vildi Kristersson ekki fara nánar út í þessar viðræður eða hvort þetta samstarf með kjarnorkuvopn væri mögulegt. Hann nefndi þó að ráðamenn í Frakklandi hefðu talað um að eiga í samstarfi við önnur ríki Evrópu um kjarnorkuvopn.

Eins og staðan er í dag eru Bretar, Frakkar og Rússar einu þjóðir Evrópu sem eiga kjarnorkuvopn. Ráðamenn í Belarús hafa haldið því fram að búið sé að koma fyrir rússneskum kjarnorkuvopnum þar.

Sænskur sérfræðingur sem SVT ræddi við sagði að ummælin væru til marks um breytt viðhorf ráðamanna í Evrópu til Bandaríkjanna og frekari vilja heimsálfunnar til að auka sjálfstæði í varnarmálum.

Trump hefði í raun sjálfur valdið þessari breytingu.

Kristersson sagði einnig í viðtali á laugardaginn að hegðun Trumps hefði komið niður á sambandi Evrópu og Bandaríkjanna. Sérstaklega hvað varðar hótanir Trumps í garð Grænlands og Danmerkur og NATO-ríkja sem stóðu með Grænlendingum og Dönum.

Hann sagði að Svíar þyrftu að taka stjórn á eigin aðstæðum og styrkja ríkið og Atlantshafsbandalagið, í samvinnu við önnur aðildarríki í Evrópu. Nefndi hann sérstaklega Danmörku, Finnland, Noreg, Eystrasaltsríkin, Pólland, Þýskaland og Bretland.

„Við viljum byggja okkar evrópska NATO.“

Rutte ósammála

Ráðamenn í Evrópu vinna víða að því að auka hernaðarmátt og hergagnaframleiðslu, með því markmiði að geta varið sig án aðstoðar frá Bandaríkjunum í framtíðinni. Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, gerði í gær lítið úr þeirri hugmynd að ríki Evrópu gætu varið sig án Bandaríkjanna.

„Ef einhver heldur hér, að Evrópusambandið eða Evrópa í heild geti varið sig án Bandaríkjanna, látið ykkur dreyma áfram,“ sagði Rutte á fundi varnar- og utanríkismálanefndar Evrópuþingsins.

Hann sagði einnig að varnir Evrópu myndu kosta fúlgur fjár án Bandaríkjanna. Evrópumenn gætu gleymt því að halda sig við fimm prósent af landsframleiðslu, sem er nýja viðmið NATO. Án Bandaríkjanna þyrftu ríki Evrópu að fara í tíu prósent og þar að auki myndi það kosta milljarða á eftir milljörðum að koma upp þeim forvörnum sem Evrópa nýtur vegna kjarnorkuvopna Bandaríkjamanna.

Í skýrslu Stockholm International Peace Research Institute (SIPRI) sem birt var í fyrra segir að umræða um það hvort ríki eigi að koma sér upp kjarnorkuvopnum hafi stungið upp kollinum í Asíu, Mið-Austurlöndum og Evrópu á undanförnum árum.

Þessi umræða hefur meðal annars verið tekin í Suður-Kóreu og Japan en þar er hún til komin af ótta við að Bandaríkjamenn væru ekki tilbúnir til taka áhættuna á því að beita sínum kjarnorkuvopnum til að svara fyrir kjarnorkuárásir á þau ríki frá Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×