Erlent

Engir her­menn í Úkraínu og enginn fundur með Pútín

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. EPA/PAVEL BEDNYAKOV

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir ekki hægt að ræða öryggistryggingar handa Úkraínumönnum án aðkomu Rússa, sem eru ástæða þess að Úkraínumenn segjast þurfa öryggistryggingar. Það muni aldrei bera árangur og segir hann að Rússar muni ganga hart fram til að tryggja eigin hagsmuni.

Ráðherrann segir einnig að fundur milli Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, og Vólódímírs Selenskí, forseta Úkraínu, komi ekki til greina að svo stöddu. Lavrov segir að þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Pútín hittust í Alaska á föstudaginn hafi Pútín ekki samþykkt að funda með Selenskí, heldur eingöngu að senda æðri embættismenn til viðræðna við úkraínska embættismenn.

Lavrov sagði að fundur milli Pútíns og Selenskís myndi eingöngu eiga sér stað á lokastigum viðræðna.

Trump hefur lagt mikið kapp á að koma Pútín og Selenskí í sama herbergið og sagt að Pútín hafi gefið til kynna að slíkt væri í boði. Því hefur einnig verið haldið fram að Pútin hafi, þegar hann ræddi við Trump í síma á mánudaginn, boðist til að taka á móti Selenskí í Moskvu.

Ummæli Lavrovs benda þó til að fundur sé alls ekki í boði að svo stöddu. Þetta er meðal þess sem hann sagði í viðtölum við fjölmiðla í Rússlandi í morgun.

Hann sagði einnig að öryggistryggingar yrðu að vera veittar á jöfnum grundvelli með aðkomu ríkja eins og Kína, Bandaríkjanna, Bretlandi og Frakklandi. Vísaði hann til viðræðna milli Úkraínumanna og Rússa í Istanbúl árið 2022 en þá áttu Rússar að hafa neitunarvald gegn því að önnur ríki kæmu Úkraínu til aðstoðar.

Sjá einnig: Viðræðurnar snerust um uppgjöf, ekki frið

Þá sakaði hann ráðamenn í Evrópu um að reyna að breyta afstöðu Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, gagnvart Rússlandi.

Sýnir ekki breytta afstöðu

Þessi ummæli utanríkisráðherrans gefa til kynna að ráðamenn í Rússlandi hafa ekki breytt afstöðu sinni gagnvart veru erlendra hermanna í Úkraínu, annarra en þeirra eigin, eins og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og hans fólk hefur haldið fram.

Viðræður milli Bandaríkjanna, Úkraínu og Evrópuríkja um mögulegar hernaðartryggingar handa Úkraínumönnum hafa átt sér stað eftir fund Trumps og Vladimírs Pútin, forseta Rússlands, á föstudaginn.

Trump sagði Selenskí og hinum leiðtogunum frá Evrópu í Washington á mánudaginn að Úkraína myndi fá öryggistryggingu sem líktist fimmtu grein stofnsáttmála NATO en fór ekki nánar út í það. Hann hefur þvertekið fyrir að senda sjálfur hermenn til Úkraínu en gefið til kynna að Bandaríkin gætu stutt evrópska hermenn úr lofti.

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur tekið að sér að leiða frekari viðræður milli Bandaríkjamanna, Úkraínumanna og Evrópu um mögulegar öryggistryggingar.

Frá því á föstudaginn hafa Lavrov og aðrir ráðamenn í Rússlandi þó ítrekað gefið í skyn eða sagt berum orðum að þær öryggistryggingar sem hafa verið ræddar séu ekki í boði, frá þeirra bæjardyrum séð.

Telja Pútín ekki vilja frið

Ráðamenn í Evrópu eru þeirrar skoðunar að Pútín hafi engan áhuga á því að koma á friði, eins og Trump virðist telja. Þetta hafa blaðamenn Politico eftir heimildarmönnum sínum í höfuðborgum Evrópu, sem segja að markmið leiðtoga heimsálfunnar sé að spila með þar til Trump átti sig á því að Pútín sé að draga hann á asnaeyrunum.

Þá vona þeir að Trump verði tilbúinn til að beita Rússland og viðskiptaríki Rússlands þeim refsiaðgerðum sem hann hefur ítrekað hótað að beita.

Þetta eru leiðtogar Evrópu sagðir telja besta kostinn. Þá þykir ljóst að þeir yrðu hæst ánægðir ef þeir hefðu rangt fyrir sér og Trump hefði rétt fyrir sér. Honum myndi takast að ná til Pútíns og koma á friði, með traustum og raunhæfum öryggistryggingum.

Sjá einnig: Góður fundur en fátt fast í hendi

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sem er líklega sá leiðtogi á Vesturlöndum sem hefur talað mest við Pútín síðan innrás Rússa í febrúar 2022 hófst, sagði í vikunni að hann teldi Pútín ekki vilja frið. Þess í stað væri hann sannfærður um að Pútín hefði eingöngu áhuga á uppgjöf Úkraínumanna. Það væri það eina sem Pútín hefði lagt til málanna hingað til.

Meðal krafa Rússa, sem eiga samkvæmt Bandaríkjamönnum að vera á borðinu, er að úkraínskir hermenn hörfi alfarið frá Donbassvæðinu svokallaða. Það er myndað Dónetsk- og Lúhanskhéruðum en Rússar stjórna Lúhans nánast öllu.

Stór hluti Dónetsk er þó enn í höndum Úkraínumanna og þar eru nokkrar borgir og nokkrir bæir sem Úkraínumenn hafa víggirt mjög. Svæðið er líklega það víggirtasta í Úkraínu.

Rússar hafa um mánaðaskeið lagt mesta áherslu á sókn þeirra í Dónetskhéraði sem hefur verið mjög hæg og er sögð hafa kostað þá verulega.

Hér má sjá grófa mynd af stöðunni á víglínunni í Úkraínu. Rússar vilja að Úkraínumenn hörfi frá Dónetsk og þar á meðal frá bæjum eins og Pokrovks og Kramatorsk, sem eru mjög víggirtir. Rússar hafa um mánaðaskeið reynt að ná Pokrovsk úr höndum Úkraínumanna.Vísir/Hjalti

Öryggistryggingar nauðsynlegar

Þetta eru kröfur sem Úkraínumenn hafa verið skýrir um að þeir geti ekki samþykkt, án áreiðanlegra og bindandi öryggistrygginga.

Eins og áður segir hefur Trump talað um að Úkraína gæti fengið öryggistryggingu sem líktist fimmtu grein stofnunarsáttmála Atlantshafsbandalagsins, sem fjallar um sameiginlegar varnir. Hann hefur þó einnig útilokað að senda bandaríska hermenn til Úkraínu.

Í gær sagði Trump að það yrði verkefni Evrópuríkja og sagði hann einnig að Frakkar, Þjóðverjar og Bretar hefðu áhuga á því að senda hermenn til Úkraínu. Það var meðal þess sem hann sagði í löngu símaviðtali við Fox and Friends í gær.

Keir Starmer sagði að í gær að áðurnefndar viðræður sem Rubio á að leiða gætu hafist á næstu dögum. Þær myndu snúast um hvað væri hægt að gera ef friði væri komið á.

Stóra vandamálið er þó það að án aðkomu Bandaríkjanna og án inngöngu í NATO, sem Trump og fleiri leiðtogar hafa þvertekið fyrir, er lítið sem ríki Evrópu geta gert. Macron talaði að nokkur ríki væru tilbúin til að senda eitthvað sem hann kallaði „hughreystingar-sveitir“, eins og bent er á í frétt Politico.

Einn evrópskur embættismaður sem rætt var við sagði ljóst að evrópskt herlið í Úkraínu þyrfti að hafa heimild til að verja sig ef Rússar gerðu árásir og þeir þyrftu einnig að hafa burði til þess. Þeir yrðu þó ekki í Úkraínu til að tryggja frið. Það yrði í höndum Úkraínumanna sjálfra.

Annar benti á að bæði Starmer og Macron, sem leiða kjarnorkuveldi með föst sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, vilji sýna að þeir geti spilað stóra rullu á alþjóðasviðinu. Þeir standi þó báðir frammi fyrir erfiðum pólitískum aðstæðum heima fyrir og í erfiðri stöðu. Því sé erfitt að segja til um hvað gerist.

Þar að auki séu þessir tímar erfiðir efnahagslega.

Svipaða sögu er að segja af Þýskalandi. Utanríkisráðherra Þýskalands sagði á dögunum að erfitt væri fyrir Þjóðverja að senda herlið til Úkraínu, þar sem þeir væru þegar með um fimm þúsund hermenn í Litháen.

Þjóðverjar hafa ekki mannaflann til að senda einnig herlið til Úkraínu.

Pólverjar, sem eru nú með fjölmennasta her Evrópusambandsins, hafa útilokað að senda hermenn til Úkraínu en segja að þeir geti stutt önnur ríki sem geri það með birgðaflutningum og slíku.

Sjá einnig: Skref nær friði eða meiri vonbrigði?

Úkraínumenn áætla að allt að sjö hundruð þúsund rússneskir hermenn séu á eða við víglínuna í Úkraínu.

Innihaldslaus umræða

Umræðan um frið og mögulegar öryggistryggingar handa Úkraínumönnum einkennist þessa dagana af þversögnum.

Ekki er ljóst hvort að friður sé í boði og umræður um mögulegar öryggistryggingar og hvort það sé yfir höfuð hægt að veita Úkraínumönnum slíkar tryggingar, hvort sem það snýr að pólitískum vilja, fjármagni eða hernaðargetu, virðist innihaldslaus.

Á meðan er enn barist á víglínunni í Úkraínu og sprengjum rignir enn yfir borgir og bæi landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×