Erlent

Hvetja for­eldra til að bólu­setja börnin sín eftir and­lát vegna mis­linga

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Breskir foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að bólusetja börnin sín.
Breskir foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að bólusetja börnin sín. Sean Gallup/Getty Images

Bresk yfirvöld hvetja börnin sín til að bólusetja börnin sín gegn mislingum eftir að barn lést vegna sjúkdómsins í Liverpool. Sífellt færri foreldrar láta bólusetja börnin sín.

Barnið sem lést, samkvæmt umfjöllun The Guardian, var með mislinga auk annarra heilsukvilla og dvaldi því á sjúkrahúsi.

Sífellt færri foreldrar í Bretlandi láta bólusetja börnin sín en í Liverpool hafa einungis 73 prósent barna undir fimm ára aldri fengið nauðsynlegar MMR bólusetningar. Í ákveðnum hlutum Lundúnaborgar eru einungis 65 prósent barna fullbólusett. 95 prósent einstaklinga verða að vera fullbólusettir til að hjarðónæmi fyrir mislingum verði til.

„Þetta er einstaklega sorglegt þegar auðvelt er að koma í veg fyrir sjúkdóminn,“ segir Helen Bedford, prófessor í heilsu barna. „Ekkert barn verður að veikjast af þessum sjúkdómi, hvað þá verða alvarlega veikt eða deyja.“

Oft sé tregða foreldra við að bólusetja börnin sín kennt um fækkun bólusetningarhlutfalla. Hins vegar geti stór hluti vandans verið vegna skorts á upplýsingum um mikilvægi bólusetninga. Erfitt getur verið að fá nægar upplýsingar um hvenær eigi að bólusetja en einnig getur verið erfitt að fá tíma hjá lækni.

„Mikið af þessu er einfalt. Við vitum það að minna foreldra á virki vel því fólk er oft upptekið og svona hlutir gleymast,“ segir Bedford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×