Skoðun

Í ó­rétti en samt í rétti? Bætur fyrir bíl­slys þegar þú ert söku­dólgurinn

Bryndís Gyða Michelsen skrifar

Lentir þú í því að keyra aftan á næsta bíl í morgunumferðinni? Hélstu að þar með værir þú búinn að fyrirgera öllum rétti til bóta fyrir hálshnykkinn sem fylgdi? Þá er kominn tími til að hugsa málið upp á nýtt. Sú hugmynd að vera „í órétti“ og þar með réttlaus er einn seigasti og dýrkeyptasti misskilningurinn í íslenskum skaðabótarétti.

Tökum dæmi:

Jón ekur á Suðurlandsbrautinni í hálku. Hann nær ekki að hemla í tæka tíð og lendir á bílnum fyrir framan. Við áreksturinn fær Jón slæman hnykk og finnur upp frá því fyrir stöðugum verkjum í baki. Skömmustulegur yfir klaufaskapnum og sannfærður um að slysið sé alfarið honum að kenna, lætur hann sig dreyma um bætur fyrir allt tapið á starfsgetu og pirringi við að geta ekki lengur sinnt helstu áhugamálum sínum, en sækir þær aldrei, hann var jú í órétti. Jón gerir þar með kostnaðarsöm mistök.

Staðreyndin er sú að íslensk löggjöf er hönnuð til að grípa ökumenn eins og Jón. Lögboðin ökutækjatrygging inniheldur nefnilega sérstaka slysatryggingu (slysatrygging ökumanns og eiganda) sem er ætlað að bæta líkamstjón ökumannsins sjálfs, jafnvel þótt hann hafi valdið slysinu.

Lykillinn að þessum óvænta bótarétti felst í 1. mgr. 9. gr. laga um ökutækjatryggingar nr. 30/2019. Þar segir að sérhver ökumaður skuli vera tryggður sérstakri slysatryggingu og að tryggingin bæti líkamstjón sem hann verður fyrir, að því gefnu að slysið verði rakið til notkunar ökutækisins.

Þetta skilyrði er mikilvægt. Það þýðir að tjónið verður að eiga sér stað á meðan þú ert bókstaflega að nota farartækið – það er að segja við akstur eða aðra eðlilega stjórnun þess. Hnykkurinn sem þú færð við áreksturinn er skólabókardæmi um tjón við notkun ökutækis. Aftur á móti, ef þú dettur og fótbrotnar á leiðinni út í bíl, þá fellur það utan tryggingarinnar, þótt þú hafir verið á leiðinni að nota hann.

Undantekningin: Þegar gáleysi er stórkostlegt

Auðvitað er þessum bótarétti sett einhver mörk. Tryggingafélög geta lækkað eða fellt niður bætur ef tjónþoli var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

Hér er nauðsynlegt að skilja muninn á almennu gáleysi og stórkostlegu gáleysi. Dómstólar hafa slegið því föstu að það þurfi mikið til. Það að renna til í hálku er mannlegt, en að aka ölvaður á 150 km/klst í íbúðahverfi getur talist stórkostlegt gáleysi. Lögin gera skýran greinarmun á mistökum, þ.e. almennu gáleysi og stórkostlegu gáleysi.

Fyrir flesta ökumenn sem gera einföld mistök í umferðinni, eins og Jón í dæminu okkar, stendur bótarétturinn því óhaggaður.

Fjárhæðirnar: Skaðabótalögin taka við

Þegar rétturinn til bóta hefur verið staðfestur er næsta skref að reikna út fjárhæðina. Þá er litið til skaðabótalaga nr. 50/1993. Ef bakverkir Jóns reynast varanlegir gæti hann átt rétt á eftirfarandi bótaliðum:

Varanlegur miski: Plástur á sárið fyrir ófjárhagslegt tjón – þ.e. verki, óþægindi og skert lífsgæði.

Varanleg örorka: Bætur fyrir framtíðartekjutap ef meiðslin hafa áhrif á starfsgetu.

Þá má ekki gleyma tímabundnu atvinnutjóni og þjáningabótum meðan á óvinnufærni stendur.

Niðurstaðan er því einföld: Ekki afskrifa rétt þinn fyrirfram. Þótt þú hafir verið „sökudólgurinn“ í umferðinni þýðir það ekki að þú sért réttlaus þegar kemur að þínu eigin líkamstjóni. Slysatrygging ökumanns er til staðar einmitt til að vernda þig. Það er því lykilatriði að leita alltaf upplýsinga um rétt sinn eftir slys, óháð því hver bar sökina.

Ráðfærðu þig við sérfræðing í bótarétti áður en þú afskrifar þinn rétt til bóta.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×