Skoðun

Snorri og Donni

Andri Þorvarðarson skrifar

Snorri Másson komst í fréttir nýverið þegar hann móðgaðist yfir því að Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar, skyldi gagnrýna grín tilvonandi sendiherra Bandaríkjanna hér á landi um að Ísland ætti að verða 52. ríki Bandaríkjanna. Þarna fannst Snorra kollegi sinn bregðast of harkalega við og að orð hans hefðu hvorki einkennst af yfirvegun né stillingu. En bíðum nú við; sú var tíðin að aðdáendur Donald Trump hlógu að spádómum um að forsetinn kynni að vilja taka Grænland sama hvað tautar og raular, þetta væri sannarlega gott dæmi um veruleikafirringu andstæðinga hans. Nú hafa þeir vent kvæði sínu í kross og styðja landgræðgi Bandaríkjaforseta á norðurslóðum dyggilega. Það sem þeim fannst hlægilegt í gær er sjálfsagt í dag, allt eftir því hvaða línu leiðtoginn leggur.

Yfirtaka Bandaríkjanna á Grænlandi virðist auk þess njóta þónokkurs stuðnings innan Miðflokksins. Þannig hefur Sveinn Óskar Sigurðsson, oddviti flokksins í Mosfellsbæ, lýst yfir eindregnum stuðningi við þær hugmyndir og kippir sér lítið upp við það hvað Grænlendingum kunni að finnast. Ætli Snorri og Sveinn hafi hugleitt hvað gerist næst ef Bandaríkin fá að gleypa Grænland? Hvað kæmi þá í veg fyrir að Ísland yrði næst á matseðlinum? Heimssýn Trump-stjórnarinnar er ekki neitt launungarmál. Ekki aðeins hefur forsetinn krafist þess að fá Grænland „á einn hátt eða annan“, heldur vildi Stephen Miller, háttsettur embættismaður í Hvíta húsinu, ekki útiloka að taka Grænland með herafli og sagði að vald og máttur væru það eina sem skipti máli í heiminum. Með öðrum orðum: Ef stærri ríki vilja undiroka þau minni þá er það sjálfsagt og eðlilegt.

Raunin er að við stöndum á krossgötum í lýðveldissögu Íslands; það alþjóðaskipulag sem hefur verið við lýði frá lokum seinni heimsstyrjaldar er í molum og óvíst er hvað tekur við. Ef heimssýn Trump-stjórnarinnar rætist, þar sem alþjóðalög heyra sögunni til og réttindi smáríkja verða fótum troðin, þá mun lýðveldið Ísland vart verða langlíft. En þetta er nákvæmlega sú heimssýn sem undirlægjur Trump-stjórnarinnar hér á landi, í Miðflokknum og víðar, tala fyrir. Það er hjákátlegt að þetta sé fólkið sem hefur hrópað hvað hæst um fullveldi Íslands og notað hvert tækifæri til að skreyta sig með íslenska fánanum, nú talar það fyrir heimsmynd þar sem hann yrði í besta falli rykfallinn safngripur.

Því er kominn tími til að almenningur krefji stjórnmálamenn á borð við Snorra Másson og meðreiðarsveina hans svara og spyrji hvar þeir muni standa ef Bandaríkin ógna fullveldi Íslands á sama hátt og þau ógna Grænlendingum nú. Munu þeir standa með ættjörð sinni, eða myndu þeir fylgja leiðtoganum vestanhafs? Hvar liggur hollusta þeirra ef á reynir?

Höfundur er framhaldsskólakennari




Skoðun

Sjá meira


×