Skoðun

Flott hjá læknum!

Siv Friðleifsdóttir skrifar

Samfélagsumræðan um aukið aðgengi að áfengi með umdeildri netsölu fer vaxandi sem betur fer. Fjölmiðlar fjalla um málið og fólk tjáir sig á samfélagsmiðlum og víðar. Ekki veitir af því samfélagið þarf að vakna áður en það er of seint.

Áskorun til yfirvalda um yfirstandandi lýðheilsuógn og sparnaðarráð

Heilbrigðisstéttir og forvarnarsamtök hafa tvívegist upp á síðkastið hvatt stjórnvöld áfram með áskorunum og ráðum hvað varðar stefnu í áfengismálum. Í þessum hópi eru m.a. Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag lýðheilsufræðinga, Ljósmæðrafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands, Félagsráðgjafafélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands, Iðjuþjálfafélag Íslands, Þroskaþjálfafélag Íslands, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, SÁÁ, Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Hafa heilbrigðisstéttir þessar og forvarnarsamtök hvatt stjórnvöld til að láta ekki deigann síga heldur efla lýðheilsu og spara fjármagn sem annars færi í að verjast afleiðingum óhóflegrar áfengisneyslu. Þann 26. ágúst 2024 var komið á framfæri Áskorun breiðfylkingar félaga heilbrigðisstétta, forvarnarsamtaka og fleiri til yfirvalda um að bregðast við yfirstandandi lýðheilsuógn vegna stóraukinnar netsölu áfengis.

Í janúar 2025 sendu aðilarnir stjórnvöldum sparnaðarráðið Verum hagsýn í ríkisrekstri – sparnaðarráð frá breiðfylkingu heilbrigðisstétta, forvarnasamtaka ofl. í samráðsgátt 21. janúar 2025.

Forvarnarsamtök hafa beitt sér um árabil

Um árabil hafa forvarnarsamtök beitt sér fyrir að farið sé eftir lögum um einkasölu ríksins á áfengi eða allt frá því að ÁTVR kærði netsölu áfengis til lögeglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann 16. júní 2020. Það tók lögreglu rúmlega 5 ár að klára að rannsaka málið og koma því í ákæru til héraðsdóms Reykjaness, en það var gert í síðast liðið haust. Þingfesting fór fram í vetur og í fyrradag var fyrirtaka þess. Samkvæmt upplýsingum á síðum dómstólsins fer aðalmeðferð málsins fram 5. mars nk. kl 9:30-14:00 . Það sér því fyrir endalok málsins. Dómsdagur nálgast.

Daði Már Kristófersson

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur verið skýrmæltur upp á síðkastið hvað varðar netsölu áfengis. 23. ágúst sl. segir hann í vísi „Það er mjög mikilvægt að við fáum skýringu á því hvort þetta sé innan heimilda laganna og það á eftir að taka um það umræðu. Það fer þá í meðferð þingsins hvort ástæða sé til að breyta þeim.“ og “Þetta eru auðvitað ákvarðanir sem þessir aðilar hafa tekið og hljóta að hafa gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem þeir hafa verið að taka.” Þann 5. janúar sl. segir hann í mbl „Álit okkar, dómsmálaráðuneytisins og ytri aðila, er svo að það sé í sjálfu sér engin óvissa og þetta snúist bara um að framfylgja lögunum. Menn geta tekist á um það hvort lögin eigi að vera svona eða einhvern veginn öðruvísi en ég tek ekki undir það að það sé óvissa í lögunum,“

Forvarnarsamtök og nú læknar

Forvarnarsamtök hafa haldið málþing um stöðu áfengisstefnunnar á Íslandi fyrri hluta árs 2024 og þann 16. júní sl. Tókst þannig að kasta ljósi á þróun mála. Nú blása læknar einnig til opins málþings fyrir almenning í tengslum Læknadaga. Vel gert hjá þeim að bjóða alla velkomna. Málþingið Skál fyrir betri heilsu! – Áfengi í alfaraleið – Samtal við samfélagið er í Silfurbergi í Hörpu kl.20 miðvikudagskvöldið 21. janúar nk. Það miðar að því aðupplýsa almenning um þá miklu normalíseringu áfengisneyslu sem orðin er og ná fram samtali um hvernig snúa verði þeirri þróun við svo lýðheilsa eflist og fjármagn sparist.

Á almenningi ekki bara að vera slétt sama um opinbera stefnu?

Almenningi er tæpast slétt sama um hvaða áfengis – og vímuvarnastefna gildir á Íslandi. Óhófleg áfengisneysla skaðar lýðheilsu og kosta samfélagið háar upphæðir og þjáningu dag hvern. Það fjármagn ætti frekar að nota í að efla velferðarkerfið og samfélagslega uppbyggingu. Rannsóknir sýna að aðgengi að áfengi skiptir máli. Verjum einkasölu ríkisins á áfengi því hún takmarkar aðgengi og heldur markaðskröftum frá því að ota áfengi að almenningi. Meira aðgengi veldur meiri neyslu. Svo einfalt er það.

Hlustum á heilbrigðisstéttir, forvarnarsamtök og fleiri sem þekkja vel til gagnreyndra rannsókna og vísinda á heilbrigðis- og lýðheilsusviði. Það er mikið undir.

Höfundur er félagi í Fræðslu og forvörnum – félagi áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu og fyrrum heilbrigðisráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×