Erlent

„Ég er for­seti sem hefur verið rænt; stríðs­fangi!“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maduro var fluttur með þyrlu til Manhattan, þar sem hann var leiddur fyrir dómara.
Maduro var fluttur með þyrlu til Manhattan, þar sem hann var leiddur fyrir dómara. Getty/GC Images/Star Max/XNY

Nicolás Maduro óskaði viðstöddum gleðilegs nýs árs þegar hann var leiddur fyrir dómara í New York í gær. Þá sagði hann að honum hefði verið rænt á heimili sínu og að hann væri stríðsfangi. Bæði hann og eiginkona hans, Cilia Flores, sögðust saklaus af þeim ákærum sem þau sæta í Bandaríkjunum.

Maduro var í fótajárnum þegar hann var leiddur inn í dómsalinn, þar sem hann sagði „Gleðilegt ár!“ á ensku áður en hann settist niður. Flores var leidd inn stuttu síðar en hún var með tvo plástra á andlitinu. Bæði settu á sig heyrnatól til að hlusta á túlk snúa því sem fram fór úr ensku yfir á spænsku.

Dómarinn Alvin Hellerstein bauð Maduro góðan dag og las síðan upp ákærurnar sem lagðar hafa verið fram á hendur Maduro og Flores. Maduro hristi höfuðið á meðan en staðfesti aðspurður að hann væri Nicolás Maduro Moros, forseti Venesúela.

„Ég er hér, eftir að hafa verið rænt 3. janúar. Ég var tekinn á heimili mínu,“ sagði Maduro. Dómarinn áréttaði að sakborningurinn fengi tækifæri seinna til að gera grein fyrir atburðum og spurði aftur hvort hann væri sannarlega Nicolás Maduro Moros.

Maduro sagðist bæði saklaus og ekki ábyrgur. „Ekki ábyrg, algjörlega saklaus,“ sagði Flores. 

Maduro óskaði eftir því að fá að hafa punkta sem hann hafði tekið niður með sér og þá fóru lögmenn hjónanna fram á að þau fengju læknisaðstoð. Lögmenn Flores sögðu hana hafa hlotið ýmsa áverka í aðgerðum Bandaríkjamanna, meðal annars mögulegt rifbeinsbrot.

Þegar fyrirtökunni lauk hrópaði einn viðstaddra að Maduro væri ekki lögmætur forseti. „Ég er forseti sem hefur verið rænt; stríðsfangi!“ svaraði Maduro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×