Erlent

Segir hernum að undir­búa á­rás á Nígeríu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa fyrirskipað hernaðarmálaráðuneyti Bandaríkjanna að undirbúa mögulega árás á Nígeríu. Þar vilji hann gjöreyða Íslömskum öfgamönnum sem séu að drepa kristna menn þar í landi.

„Ef nígerska ríkisstjórnin heldur áfram að leyfa þessi morð á kistunum, þá munu Bandaríkin undir eins stöðva alla hjálparaðstoð til Nígeríu, og gæti mætavel ráðist inn í þessa forskömmuðu þjóð „með byssur á lofti“ til þess að útrýma algjörlega íslömsku hryðjuverkamönnunum sem eru að fremja þessi voðaverk.“ segir Trump í færslu á hans eigin samfélagsmiðli, Truth Social.

Hann segir að ef árás verði gerð, verði hernaðaraðgerðin snögg og grimmileg.

„Ég hef hér með leiðbeint hernaðarmálaráðuneytinu að undirbúa mögulegar aðgerðir. Ef við gerum árás verður það skjótt, grimmilegt og sætt, alveg eins og árásir hryðjuverkafautana gegn okkar ástúðlegu kristnu mönnum!“ skrifar Trump.

„VARÚÐ: NÍGERSK STJÓRNVÖLD VERÐA AÐ BREGÐAST VIÐ UNDIR EINS!“

Nígerska þjóðin skiptist nokkurn veginn í tvennt hvað trúarbrögð varðar, helmingurinn er múhameðstrúar, og hinn helmingurinn kristinn.

Samkvæmt nýlegri umfjöllun AP-fréttastofunnar um ástandið í Nígeríu segir að fórnarlömb árása í norðurhluta landsins, þar sem flestar slíkar árásir eiga sér stað og múslimar eru í meirihluta, séu að stærri hluta til múslimar en kristnir.

Þá séu ástæður árásanna margvíslegar, og geta til að mynda varðað landsvæði og auðlindir. Engu að síður séu jafnframt árásir af trúarlegum toga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×