Fótbolti

Mbappé nýtur betur lífsins í Madrid: „Þetta er ekki á­rás á Frakk­land“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franska stórstjarnan Kylian Mbappé er á leiðinni til Íslands um helgina.
Franska stórstjarnan Kylian Mbappé er á leiðinni til Íslands um helgina. Getty/Dennis Agyeman

Kylian Mbappé er kominn á fulla ferð hjá Real Madrid og hefur byrjað þetta tímabil frábærlega. Nú er hann í landsliðsverkefni með franska landsliðinu og á leiðinni til Íslands um næstu helgi.

Mbappé segir að flutningurinn til Real Madrid hafi hjálpað honum að „ná aftur jafnvægi á huga og líkama“ og frábær byrjun hans á tímabilinu hafi undirstrikað það.

Franski landsliðsframherjinn hefur skorað sextán mörk í fjórtán leikjum fyrir félagslið og landslið á leiktíðinni og hefur aðeins einu sinni ekki náð að skora á sínu öðru tímabili í spænsku höfuðborginni.

Það tók hann fram um miðjan janúar að ná sama markafjölda eftir að hafa komið frá Paris Saint-Germain á síðasta ári, en þessi 26 ára gamli leikmaður sagði að lífið fjarri heimalandinu væri auðveldara fyrir sig.

Aðeins afslappaðri þar

„Ég hef aðlagast vel í Madrid, ég er aðeins afslappaðri þar,“ sagði Mbappé á blaðamannafundi fyrir leik á móti Aserbaídsjan í undankeppni HM.

„Þetta er ekki árás á Frakkland. Lífsstíllinn er öðruvísi, hann er minna erilsamur en í París. Mér hefur tekist að ná aftur jafnvægi á huga og líkama,“ sagði Mbappé.

Mbappé æfði einn á miðvikudag vegna ökklavandamála en hefur lýst því yfir að hann verði leikfær á morgun.

Ég held að ég muni slá metið

Mbappé fór fram úr Thierry Henry sem næstmarkahæsti leikmaður Frakklands með vítaspyrnu í undankeppnisleiknum gegn Íslandi, sem var hans 52. mark fyrir landsliðið.

Hann stefnir nú á met Olivier Giroud sem er 57 mörk en einbeitir sér nú frekar að því að viðhalda 100% árangri Frakklands á toppi D-riðils og tryggja sæti á HM.

„Ég held að ég muni slá metið. Hvenær, það veit ég ekki, ég hugsa ekki um það,“ bætti Mbappé við.

Hitt kemur af sjálfu sér

„Kannski á morgun, kannski eftir langan tíma. Það mikilvægasta er að komast á HM. Hitt kemur af sjálfu sér,“ sagði Mbappé.

„Ég verð ánægður þegar það gerist og held svo áfram því það er annað sem þarf að gera. Aserbaídsjan gerði jafntefli við Úkraínu, svo við megum ekki slaka á,“ sagði Mbappé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×