Innlent

Hópslysaáætlun virkjuð á Snæ­fells­nesi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Slysið varð í Seljafirði.
Slysið varð í Seljafirði. Grafík/Sara

Rúta með um fjörutíu manns innbyrðis fór út af veginum á Snæfellsnesi. Hópslysaáætlun hefur verið virkjuð og samhæfingarmiðstöð Almannavarna. Líðan farþeganna liggur ekki fyrir.

Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við fréttastofu. Allar björgunarsveitir í nágrenni eru á leið á vettvang. Þegar hópslysáætlun er virkjuð er lögregla, slökkvilið, sjúkralið og björgunarsveitir kölluð út. Fjöldahjálparstöð verður opnuð á Grundafirði.

„Það eru einhverjar bjargir komnar og fleiri að detta inn,“ segir hann rétt eftir klukkan sex.

Rútan er vestanmegin í Seljafirði, á norðanverðu Snæfellsnesi. Heimildir fréttastofu herma að henni hafi hvolft.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var ræst út nokkrar mínútur í sex að sögn Guðmundar Birkis aðgerðarstjóra Landhelgisgæslunnar.

Veistu meira um málið? Sendu línu á ritstjorn@visir.is eða hafðu samband á visir.is/frettaskot. Fullum trúnaði heitið.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, segir viðbragðsaðila mætta á vettvang og allir séu komnir út úr rútunni. Nú sé verið að hlúa að fólkinu sem var í rútunni en samhæfingarmiðstöð Almannavarna hefur verið virkjuð.

„Þetta lítur betur út en á horfðist,“ segir hún.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×