Erlent

Segir 75 prósent líkur á árangurs­ríkum fundi í kvöld

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump gerði því skóna í gær að fundur með Selenskí gæti farið fram mjög fljótlega og mögulega í Alaska.
Trump gerði því skóna í gær að fundur með Selenskí gæti farið fram mjög fljótlega og mögulega í Alaska. Getty/Andrew Harnik

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist í gær telja að Vladimir Pútín Rússlandsforseti vildi komast að samkomulagi um frið í Úkraínu og að hann teldi 75 prósent líkur á því að fundur þeirra í Alaska í kvöld myndi bera árangur.

Hann myndi vita það á fyrstu mínútum fundarins hvort Pútín væri alvara.

Trump freistaði þess í viðtali við Fox News Radio að sannfæra hlustendur um að hann væri fullfær um að höndla Pútín. „Ég er forseti; hann er ekki að fara að fíflast með mig,“ sagði hann.

Þá sagði hann að ef vel gengi gæti fundurinn orðið langur en ef ekki, yrði hann stuttur. Þá endurtók hann og ítrekaði að um fyrsta skref væri að ræða og að mögulegur annar fundur þar sem Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti yrði einnig viðstaddur yrði þýðingarmeiri.

Trump sagði að á þeim fundi yrðu Pútín og Selenskí að ná saman um að „skipta á milli sín“, sem er tilvísun í kröfur Rússa um að Úkraínumenn láti landsvæði af hendi. Selenskí hefur hingað til neitað að ganga til samninga um slíkt.

Þrátt fyrir að virðast nokkuð bjartsýnn um árangur varaði Bandaríkjaforseti hins vegar við væntingum um tafarlaust vopnahlé.

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að breytingar á vígvellinum gætu gert friðarumleitanir erfiðari en Rússar hafa verið í nokkurri sókn. Þá sagði hann alla gera sér grein fyrir því að til þess að ná fram friði yrðu að koma til öryggistryggingar.

Boðað hefur verið til blaðamannafundar Trump og Pútín eftir fundinn í kvöld, sem þykir benda til þess að stjórnvöld vestanhafs séu nokkuð bjartsýn um árangur. Þau hafa hótað Rússum refsiaðgerðum sýni þeir ekki samningsvilja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×