Erlent

Fyrir­ætlanir um búðir í Rafah vekja á­greining

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stórir hlutar Gasa eru rústir einar og nú hyggjast Ísraelsmenn koma íbúum fyrir í gettói á rústum Rafah.
Stórir hlutar Gasa eru rústir einar og nú hyggjast Ísraelsmenn koma íbúum fyrir í gettói á rústum Rafah. Getty/Future Publishing/GocherImagery/Ramez Habboub

Fyrirætlanir stjórnvalda í Ísrael um að safna íbúum Gasa saman í búðum á rústum Rafah-borgar hafa vakið deilur, bæði við samningaborðið og milli stjórnvalda og Ísraelshers.

Husam Badran, einn samningamanna Hamas, segir hugmyndir um búðirnar lagðar fram gagngert til þess að flækja viðræður um vopnahlé. Um yrði að ræða einangraða borg; gettó, og tillögurnar séu algjörlega óásættanlegar.

Ehud Olmert, fyrrverandi forsætisráðherra Ísrael, hefur einnig stigið fram og gagnrýnt fyrirætlanirnar, sem hann segir myndu jafngilda þjóðernishreinsun.

Forysta Ísraelshers er sömuleiðis sögð á móti hugmyndunum, jafnvel þótt herinn hafi hlýtt skipunum og hafið undirbúning verkefnisins. 

Ísraelskir miðlar hafa greint frá því að deilur hafi brotist út á milli Eyal Zamir, yfirmanns heraflans, og Benjamin Netanyahu forsætisráðherra á öryggisráðsfundi á sunnudag. 

Þar sagði Zamir að áætlunin myndi útheimta fjármagn og aðföng sem væri betur varið í að freista þess að frelsa þá gísla sem enn væru í haldi Hamas. Netanyahu sakaði Zamir hins vegar um að leggja fram óraunhæfar áætlanir um byggingu búðanna, bæði hvað varðar kostnað og tímaramma.

Krafðist hann þess að lagðar yrðu fram nýjar áætlanir, ódýrari og hraðvirkari, í dag í síðasta lagi.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×