Innlent

Ekki farið fram á gæslu­varð­hald yfir fimm­menningunum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Mikill viðbúnaður lögreglu var á vettvangi.
Mikill viðbúnaður lögreglu var á vettvangi. Vísir/Viktor Freyr

Ekki verið farið fram á gæsluvarðhald yfir fimmmenningunum sem voru handteknir aðfarnótt laugardags eftir að skotvopni var hleypt af á hótelherbergi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út á ellefta tímanum á föstudagskvöld vegna tilkynningar um að hleypt hefði verið af skotvopni á Black Pearl-hótelinu við Tryggvagötu. 

Einn karlmaður var handtekinn á vettvangi og fjórir aðrir síðar um kvöldið, bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Skýrsla var tekin af mönnunum í gær en staðfestir E. Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn, í samtali við fréttastofu að mennirnir verða ekki úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Þeir hafa allir verið látnir lausir. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni mátti sjá ummerki þess á vettvangi að skotið hefði verið úr byssu, auk þess sem skotvopn fundust á staðnum. Engan sakaði þegar skotinu var hleypt af. Viðbúnaður lögreglu var mikil, og voru íbúar, hótelgestir og aðrir á svæðinu beðnir um að halda sig innandyra á meðan aðgerðin stóð yfir.


Tengdar fréttir

Mennirnir enn í haldi lögreglu

Fimm karlmenn voru handteknir í tengslum við rannsókn lögreglu eftir að skoti var hleypt af á hóteli í miðborg Reykjavíkur. Allir eru enn í haldi lögreglu en enginn slasaðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×