Erlent

Trump út­nefnir Warsh sem næsta seðla­banka­stjóra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Warsh var aðeins 35 ára þegar hann tók sæti í stjórn seðlabanka Bandaríkjanna árið 2006. Hann var einnig ráðgjafi George W. Bush um tíma.
Warsh var aðeins 35 ára þegar hann tók sæti í stjórn seðlabanka Bandaríkjanna árið 2006. Hann var einnig ráðgjafi George W. Bush um tíma. Getty/Alastair Grant

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur útnefnt Kevin M. Warsh næsta seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Öldungadeildin þarf að staðfesta valið.

Trump tilkynnti ákvörðun sína á Truth Social, þar sem hann sagði Warsh myndu verða einn stórkostlegasta seðlabankastjóra sögunnar. Þá myndi hann aldrei valda vonbrigðum.

Warsh sat í stjórn seðlabankans á árunum 2006 til 2011.

Jerome H. Powell, núverandi seðlabankastjóri og maðurinn sem hefur valdið Trump miklum og ítrekuðum vonbrigðum, mun láta af embætti í maí en heldur sæti sínu í stjórn bankans til ársins 2028.

Það mun vera ein af ástæðum þess að Trump hefur skorið upp herör gegn Powell, sem hefur neitað að láta að stjórn og gefa eftir kröfum forsetans um að lækka vexti. Powell sætir þannig rannsókn af hálfu dómsmálaráðuneytisins varðandi endurbætur á höfuðstöðvum bankans í Washington.

Vextir eru ákvarðaðir af bankastjóra seðlabankans og tólf manna nefnd, sem meðal annars er skipuð stjórnarmönnum seðlabankans. Tilraunir Trump til að láta annan nefndarmann fjúka, Lisu Cook, eru til umfjöllunar hjá hæstarétti sem mun skera úr um vald forsetans til að grafa undan sjálfstæði seðlabankans.

Warsh, sem hefur síðustu ár unnið fyrir milljarðamæringinn Stanley Druckenmiller, hefur sagt að lækka þurfi vexti og fært rök fyrir því að tollastefna Trump muni ekki valda varanlegri verðbólgu.

Hann hefur ekki verið alveg skýr hvað varðar sjálfstæði seðlabankans og sagt að á meðan bankinn stjórni peningastefnunni sé hann hins vegar ekki alveg sjálfráða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×