Viðskipti innlent

Breytingar á fram­kvæmda­stjórn HS Orku

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
FotoJet (31)
Aðsend

Breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn HS Orku en þar hafa tvö ný svið verið stofnuð. Breytingarnar tóku gildi um nýliðin áramót.

Finnur Sveinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hins nýja sviðs sjálfbærni og aðfangastýringar. Hann hefur síðastliðin fjögur ár stýrt sjálfbærnideild fyrirtækisins auk þess að annast viðskiptastjórn nýframkvæmda. Finnur er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í umhverfisfræði frá Gautaborgarháskóla.

Hann hóf störf hjá HS Orku í árslok 2020 sem viðskiptastjóri og deildarstjóri sjálfbærni. Þar áður bjó hann í tólf ár í Svíþjóð og starfaði sem ráðgjafi á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar.

Lilja Magnúsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri auðlinda sem er einnig nýstofnað svið. Hún er með doktorsgráðu í orkuverkfræði frá Stanford-háskólanum í Bandaríkjunum og meistaragráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Hún hóf störf hjá HS Orku árið 2020 og leiddi deild auðlindastýringar árin 2023 til 2025. Áður starfaði Lilja sem yfirverkfræðingur í hönnun og þróun hjá sólarrafhlöðudeild Tesla í Kaliforníu þar sem hönnun hennar leiddi til einkaleyfis.

Einnig verða breytingar á framkvæmdastjórn á sviði þróunar og framkvæmda en Sunna Björg Helgadóttir, sem hefur gegnt stöðunni hingað til, hefur verið ráðin forstjóri Rio Tinto á Íslandi. Yngvi Guðmundsson tekur verið sem framkvæmdastjóri þróunar og framkvæmda. Hann hefur verið yfirverkfræðingur HS Orku frá árinu 2017.

Yngvi er með meistaragráðu í vélaverkfræði frá Stellenbosch-háskólanum í Suður-Afríku og BS-gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann tekur við stöðunni 1. mars 2026. Áður en hann gekk til liðs við HS Orku var hann verkefnastjóri jarðhitaverkefna hjá Verkís, 2012 til 2017, og verkefnastjóri ÍAV við byggingu Hörpu, 2007-2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×