Innlent

Sjóðir að tæmast og upp­sagnir í kortunum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Drífa Snædal, talskona Stígamóta, segir blikur á lofti í rekstri samtakanna.
Drífa Snædal, talskona Stígamóta, segir blikur á lofti í rekstri samtakanna. Vísir/Anton Brink

Stígamót sjá fram á hallarekstur og tóma varasjóði á þessu ári og uppsagnir eru að óbreyttu fram undan að sögn talskonu samtakanna. Á sama tíma er viðvarandi biðlisti eftir þjónustu.

Stígamót sinna ýmsu forvarnarstarfi og ráðgjöf en veita fyrst og fremst þolendum kynferðisofbeldis þjónustu að kostnaðarlausu. Starfsemin er að jafnaði að þriðjungi fjármögnuð af ríkinu, í gegnum rekstrarstyrk frá félagsmálaráðuneyti og verkefnastyrki frá dómsmálaráðuneyti. Sveitarfélög, og þá að lang mestu leyti Reykjavíkurborg, fjármagna innan við tíu prósent en samtökin treysta á framlög frá almenningi til að fjármagna það sem eftir stendur, eða yfir helming rekstrarkostnaðar. 

Samtök í stöðugri samkeppni

Drífa Snædal, talskona Stígamóta, segir reksturinn eilífa baráttu. „Og það er mjög umhugsunarvert að stjórnvöld hafa undirgengist alþjóðasamninga um að styðja við félagasamtök og tryggja ákveðna þjónustu sem að við erum að gera, sem er í rauninni þjónusta sem að sem að hið opinbera á að tryggja að sé til staðar, en fjármagn hefur ekki fylgt,“ segir Drífa og vísar til Istanbúlsamningsins.

Stígamót sinna ýmsu forvarnarstarfi og hafa meðal annars staðið fyrir verkefninu Sjúk ást, um ofbeldi í nánum samböndum ungmenna.vísir/Vilhelm

Fjölmörg samtök treysti á almannafé og Drífa segir umhugsunarvert að stöðugt sé verið að etja þeim saman í samkeppni um styrki. Staðan sé nú sérstaklega viðkvæm.

„Á þessu ári munum við tæma alla varasjóði ef eitthvað annað kemur ekki til. Og síðan er það þannig að við erum bara með eins árs samning við ríkið, þannig að fyrirsjáanleikinn er enginn.“

Niðurskurður sé að óbreyttu fram undan.

„Við erum með mjög litla yfirbyggingu, eins og á við um svona félagasamtök yfir höfuð. Og það þýðir þá náttúrulega bara að fækka starfsfólki. Það er eitthvað sem við getum ómögulega gert þegar við erum með biðlista eftir þjónustunni okkar og það er stöðug ásókn í þjónustuna,“ segir Drífa og bætir við að staðan sé áhyggjuefni. 

„Hingað kemur fólk þegar það er tilbúið og ef það er ekki gripið þegar það er tilbúið að koma geturðu verið að missa af fólki sem þarf hjálp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×