Innlent

Pétur fer á móti borgar­stjóra og vill fyrsta sætið í Reykja­vík

Eiður Þór Árnason skrifar
Pétur H. Marteinsson ætlar í borgina.
Pétur H. Marteinsson ætlar í borgina. Aðsend/Skúli Hólm

Pétur Marteinsson, rekstrarstjóri og fyrrverandi knattspyrnumaður, ætlar að gefa kost á sér í oddvitasæti Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Þar fer hann á móti Heiðu Björg Hilmisdóttur, núverandi oddvita og borgarstjóra.

Pétur greinir frá þessu í samtali við RÚV og á samfélagsmiðlum en prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík fer fram 24. janúar. 

Pétur segist með þessu vilja bjóða fram reynslu sína, þekkingu og „einlægan áhuga á borgarmálum í það verkefni að gera góða borg enn betri fyrir alla borgarbúa.“

„Ég á að baki dýrmæt uppvaxtarár í Breiðholti, hef búið víða erlendis en hef á undanförnum árum unnið að borgarmálum í Reykjavík utan ramma stjórnmálanna og sé tækifæri til að gera borgarumhverfið skilvirkara og auka þannig velferð og lífsgæði borgarbúa til framtíðar,“ segir hann í tilkynningu á Facebook-síðu sinni.

Reykjavík geti boðið upp á lífsgæði sem jafnist á við það besta sem gerist í heiminum.

„Málstaður okkar jafnaðarfólks er sterkur: Við vitum að Reykjavík gengur best þegar jöfnuður er mikill, bilið milli fólks er lítið, samhjálpin er sterk og borgarbúar hjálpast að við að gera samfélagið gott. Til þess þarf sterka liðsheild og samheldinn borgarstjórnarflokk Samfylkingarinnar sem getur sannfært borgarbúa í vor um að treysta okkur fyrir verkefninu.“

Kristrún átti samtal við Pétur

Pétur Hafliði Marteinsson er fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu. Auk Íslands spilaði hann í Svíðþjóð, Noregi og Bretlandi. Hann rekur Kaffihús Vesturbæjar ásamt sjónvarpsmanninum Gísla Marteini Baldurssyni. Auk þess er hann markaðsstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins OZ Sport.

Fram að þessu hafði Heiða Björg borgarstjóri ein lýst því yfir að hún sóttist eftir fyrsta sætinu en heimildir fréttastofu herma að leit hafi staðið yfir innan flokksins að frambjóðanda sem gæti tekið við af borgarstjóranum. Tilkynna þarf framboð í prófkjörinu í síðasta lagi næsta laugardag en Pétur hefur ekki svarað fyrirspurnum fréttastofu síðustu daga.

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagðist á þriðjudag hafa rætt við Pétur og aðra sem hefðu íhugað framboð fyrir Samfylkinguna. Í Kryddsíldinni í gær, gamlársdag, sagði hún það ofsögum sagt hver áhrif sín væru í þessum efnum.

Fréttin er í vinnslu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×