Erlent

Trump hundfúll að fá ekki greiða gegn greiða

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump virðist hafa gert ráð fyrir að fá eitthvað fyrir sinn snúð, þegar hann náðaði Cuellar.
Trump virðist hafa gert ráð fyrir að fá eitthvað fyrir sinn snúð, þegar hann náðaði Cuellar. Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti brást reiður við þegar í ljós kom að þingmaður sem hann náðaði sótti um endurkjör sem Demókrati. Svo virðist sem forsetinn hafi gert ráð fyrir að þingmaðurinn myndi ganga í raðir Repúblikana í þakklætisskyni.

Trump náðaði á dögunum Henry Cuellar, Demókrata og fulltrúadeildarþingmann fyrir Texas, en sá var ákærður í stjórnartíð Joe Biden fyrir að taka við mútum frá ríkisolíufyrirtæki Aserbaídsjan og ónefndum mexíkóskum banka.

Klukkustundum eftir að hann var náðaður skilaði Cuellar inn umsókn um endurkjör sem Demókrati en það er greinilegt á viðbrögðunum að Trump hafði vonast til að þingmaðurinn myndi skipta um fylkingu og auka nauman meirihluta Repúblikana.

„Þvílíkur skortur á TRÚMENNSKU,“ skrifaði forsetinn á samfélagsmiðla í gær. „O jæja, næst verður ekkert meira Herra vinalegur!“

Sjálfur sagðist Cuellar í samtali við Fox News í gær að hann væri Bandaríkjamaður, Texasbúi og Demókrati, í þessari röð. Cuellar hefur lýst sér sem íhaldssömum Demókrata en hann er fylgjandi harðari aðgerðum í innflytjendamálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×