Erlent

Segist ætla að stöðva allan að­flutning fólks frá „þriðja heims ríkjum“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forsetinn fór mikinn á Truth Social í gær.
Forsetinn fór mikinn á Truth Social í gær. Getty/John McDonnell

Donald Trump Bandaríkjaforseti fór mikinn á samfélagsmiðlum í gær, þegar Bandaríkjamenn héldu upp á þakkargjörðardaginn, og sagðist hafa í hyggju að stöðva allan aðflutning fólks frá „þriðja heims ríkjum“.

Það var fátt um þakkir í löngum póstum Trump, þar sem hann hélt því meðal annars fram að af 53 milljón útlendingum í Bandaríkjunum væru flestir frá „misheppnuðum ríkjum“ eða hefðu komið til landsins úr fangelsum, geðheilbrigðisstofnunum eða gengjum.

Þeim og börnum þeirra væri haldið uppi af góðhjörtuðum Bandaríkjamönnum, sem kynnu ekki við að kvarta. Þessi „flóttamannabyrði“ væri helsta ástæða alls ills í Bandaríkjunum og sem dæmi, hefðu Sómalir tekið  yfir Minnesota.

„Sómölsk gengi fara um göturnar og leita að „bráð“, á meðan dásamlega fólkið okkar læsir sig inni í íbúðum sínum og húsum og vonast til að vera látið í friði,“ sagði Trump. Þá sakaði hann „alvarlega þroskaheftan“ ríkisstjóra Minnesota, Tim Walz, varaforsetaefni Kamölu Harris, um að gera ekki neitt.

Forsetinn skaut einnig á þingkonuna Ilhan Omar, sem hann sagði alltaf „vafða í hijab“ og gera ekkert nema að kvarta. Trump sagði ennfremur að Omar hefði líklega komið ólöglega inn í landið, frá ríki sem væri varla hægt að kalla ríki. Omar fæddist í Sómalíu.

Eins og fyrr segir, sagðist Trump myndu stöðva allan aðflutning fólks frá þriðja heims ríkjum, þar til búið væri að ná tökum á ástandinu í landinu. Allir þeir sem legðu ekki sitt af mörkum yrðu sendir úr landi. Þá hótaði hann því að stöðva alla aðstoð og greiðslur til þeirra sem ekki væru ríkisborgarar.

„Að þessu sögðu; gleðilega þakkargjörðarhátíð til allra, nema til þeirra sem hata, stela, myrða og eyðileggja allt sem Bandaríkin standa fyrir. Þú verður ekki hérna lengi!“ sagði forsetinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×