Innlent

Vilja koma á fót nýrri stofnun fyrir fólk sem þarf að sæta öryggis­ráðstöfunum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, mun mæla fyrir frumvarpinu í nóvember. 
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, mun mæla fyrir frumvarpinu í nóvember.  Vísir/Lýður

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur birt frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda sem fjallar um framkvæmd öryggisráðstafana samkvæmt dómsúrlausn. Í frumvarpinu er lagt til að nýrri stofnun verði komið á fót sem sjái um framkvæmdina. Heiti hennar verði Miðstöð um öryggisráðstafanir. Fjármagn til uppbyggingar og reksturs nýju stofnunarinnar hefur þegar verið tryggt.

Í tilkynningu kemur fram að ekki hafi áður verið til heildstæð lög um framkvæmd öryggisráðstafana hér á landi. Frumvarpið sé hluti af afar umfangsmikilli vinnu stjórnvalda í málaflokknum.

„Svo árum skipti hefur verið ákall um að stjórnvöld nái utan um þennan málaflokk. Nú höfum við gengið í verkið. Loksins erum við að ná heildstætt utan um hóp fólks sem þarf sértæk úrræði – úrræði sem hingað til hefur skort,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, í tilkynningunni og að ný stofnun muni gjörbreyta landslaginu.

Nokkur mál hafa komið upp síðustu misseri þar sem íbúar eða sérfræðingar innan til dæmis fangelsismálakerfisins lýsa áhyggjum af einstaklingum sem eru á leið úr fangelsisvistun en stafar enn ógn af og einstaklingum sem þurfa aðstoð vegna geðrænna vandamála.

Í tilkynningu segir að markmiðið með frumvarpinu sé að bæta lagaumhverfi og framkvæmd öryggisráðstafana og gera úrbætur í málefnum einstaklinga sem með dómsúrlausn er gert að sæta slíkum ráðstöfunum.

Stofnunin eigi að tryggja að framkvæmd öryggisráðstafana sé í samræmi við mannréttindi og að réttaröryggi þeirra sem sæta slíkum ráðstöfunum sé tryggt. Sömuleiðis að öryggisráðstafanir varni því að viðkomandi verði sjálfum sér eða öðrum að skaða.

Þá segir einnig að það verði markmið að sú þjónusta sem veitt verður samhliða öryggisráðstöfunum stuðli að aukinni hæfni og virkri þátttöku þeirra sem þeim sæta og að þeir fái viðeigandi stuðning, þjálfun og meðferð.

Mælir fyrir frumvarpinu í nóvember

Gert er ráð fyrir að félags- og húsnæðismálaráðherra mæli fyrir frumvarpinu í nóvember. Á þingmálaskrá ríkisstjórnar er einnig að finna frumvarp Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra, sem snýr að breytingum á þeim kafla í almennum hegningarlögum sem fjallar um öryggisráðstafanir.

Þá er á þingmálaskránni frumvarp til laga um barnavernd sem Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, mælir fyrir og tengist sömuleiðis vinnu stjórnvalda í málaflokknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×