Innlent

Allt að átta stiga frost og él á stöku stað

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Búast má við allt að átta stiga frosti í dag.
Búast má við allt að átta stiga frosti í dag. Vísir/Vilhelm

Búast má við allt að átta stiga frosti í dag og él á stöku stað við norður- og vesturströndina. Annars hæg breytileg átt og bjart með köflum en bætir í suðaustanáttina vestanlands seint í kvöld. Á morgun má búast við rigningu, slyddu eða snjókomu með köflum og fer hlýnandi eftir því sem líður á morgundaginn en hiti þó um eða yfir frostmarki. Hálka eða hálkublettir eru víða á vegum samkvæmt Vegagerðinni.

Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofunni segir að líkt og undanfarna daga verði veður með rólegasta móti á landinu í dag. Þykknar svo upp vestanlands í kvöld og hægt vaxandi suðaustanátt.

„Á morgun ganga skil austur yfir landið. Þeim fylgir úrkoma með köflum um allt land, ýmist rigning, slydda eða snjókoma en vindur verður ekki tiltakanlega mikill. Þó má búast við snörpum vindstrengjum á norðanverðu Snæfellsnesi um tíma í fyrramálið.

Hlýnar í veðri, hiti um eða yfir frostmarki seinnipartinn, og þá mun hafa dregið talsvert úr úrkomunni á vestanverðu landinu.

Á miðvikudag er svo útlit fyrir breytilega átt með éljum eða slydduéljum, en lengst af þurru veðri um landið suðaustanvert.”

Veðurhorfur næstu daga

Á þriðjudag:

Suðlæg átt 5-13 m/s og rigning, slydda eða snjókoma með köflum. Hægari vestlæg átt og dálitlar skúrir eða él á vestanverðu landinu eftir hádegi. Hlýnandi, hiti um eða yfir frostmarki síðdegis.

Á miðvikudag:

Breytileg átt 3-10 og él eða slydduél, en úrkomulítið um landið suðaustanvert. Hiti um eða undir frostmarki. Vaxandi austanátt við suðurströndina um kvöldið.

Á fimmtudag:

Norðaustan 10-18, en stormur við suðausturströndina. Snjókoma eða slydda, en úrkomuminna á Norður- og Vesturlandi. Hiti breytist lítið.

Á föstudag:

Minnkandi norðanátt og snjókoma eða él, en þurrt að mestu sunnan heiða. Frost 0 til 6 stig.

Á laugardag:

Norðlæg eða breytileg átt og dálítil él á víð og dreif. Kalt í veðri.

Á sunnudag:

Austlæg átt og slydda eða snjókoma með köflum. Hlýnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×