Erlent

Rak nefndina sem átti að taka fyrir viðhafnarsalinn og sigur­bogann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump ryður öllum hindrunum úr vegi sínum.
Trump ryður öllum hindrunum úr vegi sínum. Getty/Kevin Dietsch

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur rekið alla nefndarmenn nefndar sem veitir fagurfræðilega umsögn um öll byggingaráform stjórnvalda á höfuðborgarsvæðinu í Washington D.C.

Nefndin mun yfirfara og veita álit sitt á fyrirhuguðum framkvæmdum við Hvíta húsið, þar sem Trump hyggst reisa umfangsmikinn viðhafnarsal, og „sigurboga“ sem á að koma fyrir einhvers staðar í höfuðborginni.

Umrædd nefnd, „Commission of Fine Arts“, er jafnan skipuð arkitektum og landslagshönnuðum og var fyrst sett á laggirnar fyrir meira en öld. Henni er ætlað að veita forsetanum, þinginu og borgaryfirvöldum ráðgjöf í skipulags- og framkvæmdamálum.

Hún veitir meðal annars álit á fyrirhuguðum opinberum byggingum og minnisvörðum og Hvíta húsið hefur jafnan leitað samþykkis nefndarinnar áður en framkvæmdir eru hafnar.

Þeir sex sem áttu sæti í nefndinni áður en þeim bárust uppsagnarbréf í vikunni voru skipaðir af Joe Biden, fyrrverandi varaforseta. Skipunartími þeirra eru fjögur ár.

Heimildarmaður Washington Post innan Hvíta hússins staðfesti hins vegar að nefndarmennirnir hefðu fengið reisupassann og nýir yrðu skipaðir, sem væru meira fylgjandi stefnu forsetans um „Bandaríkin fyrst“.

Meðlimir annarar skipulagsnefndar, National Capital Planning Commission, sem yfirfer fyrirætlanir um breytingar á ytra byrði Hvíta hússins, voru látnir fjúka í júlí síðastliðnum. Meirihluti nefndarinnar er nú skipaður stuðningsmönnum Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×