Skoðun

Nýtt Reykja­víkur­módel í leik­skóla­málum

Andri Reyr Haraldsson og Óskar Hafnfjörð Gunnarsson skrifa

Reykjavíkurborg kynnti nýlega hugmyndir um svokallað „nýtt Reykjavíkurmódel“ í leikskólamálum. Síðan þá hefur mikið verið rætt og ritað um málið – og ekki að ástæðulausu.

Stéttarfélög innan Fagfélaganna lýsa yfir miklum áhyggjum af þessum hugmyndum. Félagsfólk okkar vinnur oft langa vinnudaga, og töluverður hluti þess er í vaktavinnu þar sem vinnudagurinn teygir sig langt fram á kvöld. Með fyrirhuguðum breytingum blasir við að margir munu lenda annað hvort í þjónustuskerðingu eða umtalsverðum hækkunum á leikskólagjöldum.

Við erum þó sammála því að eitthvað þarf að gera í leikskólamálum – en leiðin sem borgin hefur valið er ekki sú rétta.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið og grunnstoð samfélagsins. Það þarf að meta störf leikskólafólks að verðleikum, hækka laun, bæta aðstöðu og fjölga stöðugildum. Það er löngu ljóst að miklar kröfur og álag hafa ýtt undir mönnunarvanda og veikindaforföll. Starfsfólk leikskóla kennir og sér um okkar dýrmætustu verðmæti – börnin okkar – og á skilið að fá greitt í samræmi við þá ábyrgð sem því er falin.

Í síðustu kjarasamningum skrifuðu sveitarfélögin undir og lofuðu að halda aftur af gjaldskrárhækkunum. Ljóst er að með þessum breytingum er Reykjavíkurborg að gjörbrjóta það samkomulag.

Við viljum einnig benda á að stór hluti félagsfólks okkar eru karlar. Við viljum styðja við og hvetja karla til að taka jafnan þátt í uppeldi og umönnun barna. Við óttumst hins vegar að með þessum breytingum verði bakslag í þeirri baráttu, þar sem vinnutilhögun margra feðra mun einfaldlega útiloka jafna þátttöku. Þá lendir sú ábyrgð aftur í enn meira mæli á konum. Við það verður ekki unað.

Við hvetjum Reykjavíkurborg eindregið til að staldra við, hlusta á raddir fólksins sem þetta snertir, og hugsa málið upp á nýtt.

Andri er formaður FÍR, Félags íslenskra rafvirkja, og varaformaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Óskar er formaður MATVÍS, Matvæla- og veitingafélags Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×