Erlent

Þrír skotnir af leyniskyttu við byggingu ICE í Dallas

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi í Dallas.
Frá vettvangi í Dallas.

Þrír voru skotnir af leyniskyttu nærri byggingu í eigu Innflytjenda og tollaeftirlits Bandaríkjanna (ICE) í Dallas. Mennirnir sem voru skotnir voru í haldi ICE en árásarmaðurinn er sagður hafa svipt sig lífi.

Að minnsta kosti einn er látinn, auk árásarmannsins, samkvæmt lögreglu. Fjölmiðlar ytra segja tvo hafa verið skotna til bana.

Lögreglan er með gífurlegan viðbúnað á svæðinu en CNN hefur eftir starfandi yfirmanni ICE að fyrstu upplýsingar bendi til þess að árásarmaðurinn hafi hleypt af skotum úr leyni og úr einhverri fjarlægð.

Todd Lyons, yfirmaður ICE, lýstir honum sem leyniskyttu.

Kristi Noem, heimavarnaráðherra, segir árásarmanninn hafa svipt sig lífi en hann er sagður hafa verið í bílastæðahúsi skammt frá byggingu ICE. Noem segir tilefni árásarinnar ekki liggja fyrir enn en staðhæfir að starfsmenn ICE standi frammi fyrir fordæmalausum hótunum og ofbeldi.

Þetta ku vera í þriðja sinn sem skotið er á byggingu í eigu ICE eða Landamæraeftirlitsins í Texas á þessu ári.

Í annarri færslu á X staðfestir Noem að ótilgreindur fjöldi fólks hafi særst og einhverjir hafi látið lífið í árásinni.

Þá hefur CNN eftir heimildarmönnum sínum að minnst tveir þeirra sem hafi orðið fyrir skotum hafi verið menn í haldi ICE. Það er að segja, menn sem eru grunaðir um að hafa dvalið í Bandaríkjunum með ólöglegum hætti. Fox hefur það sama eftir sínum heimildarmönnum og segir enga útsendara ICE hafa orðið fyrir skotum.

Lögreglan í Dallas segir einn hafa látist á vettvangi og tvo hafa verið flutta á sjúkrahús. Fjölmiðlar ytra segja einn þeirra hafa dáið á sjúkrahúsi.

Starfsmenn stofnunarinnar og annarra alríkislöggæslustofnana hafa á undanförnum mánuðum tekið þátt í umfangsmiklu átaki sem snýr að því að vísa fólki sem dvelur ólöglega í Bandaríkjunum úr landi. Þeir hafa víða sést grímuklæddir og þungvopnaðir í borgum Bandaríkjanna en átak þetta er verulega umdeilt vestanhafs.

Fréttin hefur verið uppfærð og verður uppfærð frekar.


Tengdar fréttir

Trump-liðar heita hefndum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og undirsátar hans í Hvíta húsinu, hótuðu í gær að beita ríkinu til að refsa fólki, samtökum og stofnunum á vinstri væng bandarískra stjórnmála sem þeir kenna um morðið á Charlie Kirk. Trump lagði til að beita lögum gegn skipulagðri glæpastarfsemi til að refsa pólitískum andstæðingum sínum.

Bandaríkjamenn handtóku yfir þrjú hundruð Suður-Kóreumenn

Yfir þrjú hundruð ríkisborgarar Suður-Kóreu voru handteknir í Bandaríkjunum fyrir helgi fyrir að starfa þar ólöglega í rafmagnsbílaverksmiðju. Suðurkóresk yfirvöld hyggjast flytja alla ríkisborgarana aftur til síns heima í leiguflugi.

Búa sig undir komu hermanna og útsendara ICE

Leiðtogar Chicago í Bandaríkjunum búa sig nú undir það að fá fjölda hermanna og útsendara Innflytjendastofnunnar Bandaríkjanna (ICE) til borgarinnar. Það gera þeir meðal annars með því að fræða íbúa um réttindi þeirra og eru samfélagsleiðtogar að skipuleggja mótmæli.

Ætla að stoppa farandfólk með svartri málningu

Kristi Noem, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti í vikunni að til stæði að mála allan múrinn á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó svartan. Þannig ætti að gera farand- og flóttafólki erfiðara með að komast til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×