Skoðun

Á­kalli um sam­ræmingu í eftir­liti svarað

Lilja Björk Guðmundsdóttir skrifar

Um árabil hafa Samtök iðnaðarins ásamt fleiri hagsmunasamtökum kallað eftir breytingum á fyrirkomulagi heilbrigðiseftirlits. Vegur þar þyngst ósamræmi í framkvæmd eftirlitsaðila milli landssvæða og skortur á yfirsýn. Afleiðingarnar eru að fyrirtæki á landsvísu hafa búið við mismunandi starfs- og rekstrarskilyrði sem skapar ófyrirsjáanleika og ójafnræði milli aðila á markaði.

Málið á sér aðdraganda og hefur verið til skoðunar hjá stjórnvöldum síðastliðin ár. Starfshópar hafa verið skipaðir, úttektir lagðar fram, skýrslur eftirlitsstofnana birtar ásamt því að farið hefur fram samráð við hagaðila. Í október 2023 lagði starfshópur þáverandi umhverfisráðherra til að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga yrði lagt niður og eftirlitið fært til ríkisins. Lagðar voru fram þrjár sviðsmyndir sem fólu í sér fækkun heilbrigðiseftirlitssvæða ásamt yfirfærslu til ríkisins. Starfshópurinn taldi löngu tímabært að ráðist yrði í heildstæða endurskoðun á kerfinu með vísan í ósamræmi, flókna stjórnsýslu og skort á yfirsýn. Þá sendi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) formlegt bréf til stjórnvalda í júlí 2024 þar sem fram kom að stjórnsýsla á sviði matvæla- og heilbrigðiseftirlits hérlendis væri hvorki nægjanlega samræmd né stöðug. Þessum athugasemdum ber að taka alvarlega. Ef ekkert er aðhafst getur Ísland talist brotlegt við skuldbindingar sínar á grundvelli EES-samningsins að ótöldum kostnaðarsömum afleiðingum fyrir íslenska framleiðendur.

Á meðan hafa aðildarfyrirtæki Samtaka iðnaðarins mörg hver staðið frammi fyrir ósamræmi í framkvæmd með tilheyrandi óhagræði. Í greiningu Samtaka iðnaðarins frá janúar 2024 kom fram að stjórnendur iðnfyrirtækja töldu nauðsynlegt að skapa einfaldara og samhæfðara kerfi milli sveitarfélaga, auka gagnsæi hvað varðar ferla og stöðu mála ásamt því að auka fyrirsjáanleika við eftirlit. Tvö ráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti, hafa nú svarað ákallinu með áætlun um að eftirlit verði fært frá stofnunum sveitarfélaga til ríkisins. Með breytingunum fækkar framkvæmdaraðilum eftirlits úr ellefu í tvo og verður þannig stuðlað að samræmdu og einfaldara eftirliti um land allt.

Samtök iðnaðarins fagna fyrirhugaðri breytingu og telja hana stórt framfaraskref til að tryggja samræmda og skilvirka framkvæmd sem stuðli að auknum fyrirsjáanleika. Að því sögðu þarf að tryggja að sú sérfræðiþekking sem er til staðar á landsbyggðinni haldi og eftirlitsaðilar séu í nálægð við fyrirtækin um land allt. Vonir eru bundnar við að samræmd framkvæmd bæti rekstrarskilyrði og styrki þannig samkeppnishæfni iðnfyrirtækja samfélaginu til heilla, á sama tíma og öryggi neytenda er tryggt.

Höfundur er yfirlögfræðingur Samtaka iðnaðarins.




Skoðun

Sjá meira


×