Erlent

Spinna sam­særis­kenningar vegna óvenjumargra and­láta fram­bjóð­enda

Kjartan Kjartansson skrifar
Alice Weidel og Valkostur fyrir Þýskaland ætla sér stóra hluti í sambandslandskosningunum. Weidel hefur lítið gert til þess að stoppa af samsæriskenningar um dauða frambjóðenda flokksins í fjölmennasta sambandslandinu.
Alice Weidel og Valkostur fyrir Þýskaland ætla sér stóra hluti í sambandslandskosningunum. Weidel hefur lítið gert til þess að stoppa af samsæriskenningar um dauða frambjóðenda flokksins í fjölmennasta sambandslandinu. Vísir/EPA

Samsæriskenningar grassera á samfélagsmiðlum í Þýskalandi vegna þess að sex frambjóðendur á listum hægriöfgaflokksins Valkosts fyrir Þýskalands (AfD) hafa andast á síðustu vikum. Lögregla segir engar vísbendingar um nokkuð misjafnt.

Upphaflega var greint frá því að fjórir frambjóðendur á listum AfD fyrir sambandslandskosningar í Norðurrín-Vestfalíu hefðu andast. Eftir að fregnir bárust af því að tveir varamenn á listum flokksins hefðu einnig farið yfir móðuna miklu fóru samsæriskenningar á flug.

Alice Weidel, annar leiðtoga flokksins á landsvísu, gaf þeim samsæriskenningum byr undir báða vængi með því að deila samfélagsmiðlafærslu um að það væri nær tölfræðilega ómögulegt að svo margir frambjóðendur létust á svo skömmum tíma.

Um átján milljónir manna búa í Norðurrín-Vestfalíu sem er fjölmennasta sambandsland Þýskalands. Um tuttugu þúsund manns eru á framboðslistum flokka í kosningunum sem verða haldnar 14. september, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Lögreglan segir ýmist um fyrstu fjögur andlátin að þau hafi verið að náttúrulegum orsökum eða að dánarorsök sé ekki gefin upp til að vernda friðhelgi einkalífs aðstandenda. Það sama er uppi á teningnum um andlát varamannanna tveggja. Innanríkisráðuneytið sambandslandsins bendir á að frambjóðendur annarra flokka hafi einnig látist í aðdraganda kosninganna.

Næstráðandi AfD í sambandslandinu segir að þær upplýsingar sem hann hefur séð bendi ekki til þess að fótur sé fyrir neinum samsæriskenningum. Hann vilji að andlátin verði rannsökuð ítarlega án þess að það færist strax út í samsæriskenningar.


Tengdar fréttir

Öf­ga­hægri­flokkur mælist stærstur í Þýska­landi

Rétt rúmur fjórðungur svarenda í nýrri skoðanakönnun í Þýskalandi sagðist kjósa öfgahægriflokkinn Valkost fyrir Þýskaland, fleiri en nokkurn annan stjórnmálaflokk. Afgerandi meirihluti er óánægður með störf Friedrichs Merz kanslara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×