Viðskipti innlent

Ráðin til Fossa fjár­festingar­banka

Atli Ísleifsson skrifar
Ástrós Björk Viðarsdóttir og Arnór Brynjarsson.
Ástrós Björk Viðarsdóttir og Arnór Brynjarsson.

Fossar fjárfestingarbanki hefur ráðið tvo nýja starfsmenn á svið fyrirtækjaráðgjafar bankans. Ástrós Björk Viðarsdóttir er nýr verkefnastjóri og Arnór Brynjarsson sérfræðingur.

Í tilkynningu segir að Ástrós Björk búi að yfir tuttugu ára reynslu á fjármálamarkaði, aðallega í fyrirtækjaráðgjöf þar sem hún hafi stýrt og tekið þátt í fjölmörgum veigamiklum verkefnum í íslensku atvinnulífi. 

„Hún hefur einnig reynslu sem fjármálastjóri og framkvæmdastjóri, meðal annars sem fjármálastjóri fasteignafélagsins Íþöku.

Á árunum 2004 til 2013 starfaði Ástrós í Landsbankanum, fyrst við greiningu á fyrirtækjum og efnahagsmálum en síðar í fyrirtækjaráðgjöf. 2013 færði hún sig yfir í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka og starfaði þar til 2021.

Ástrós er með grunn og framhaldsmenntun í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík auk þess að hafa lokið námi í verðbréfaviðskiptum.

Arnór kemur til Fossa frá KPMG í Kaupmannahöfn þar sem hann starfaði við fyrirtækjaráðgjöf á árunum 2022-2025. Þar áður starfaði hann sem greinandi hjá Copenhagen Offshore Partners, á fjármálasviði Arion Banka og sem dæmatímakennari við Háskólann í Reykjavík.

Arnór er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavik og M.Sc. gráðu í fjármálum frá Copenhagen Business School. Þá hefur hann lokið prófi í verðbréfaviðskiptum,“ segir í tilkynningunni. 

Um Fossa fjárfestingarbanka segir að hann veiti innlendum og erlendum fjárfestum þjónustu á sviði miðlunar fjármálagerninga, fyrirtækjaráðgjafar og eignastýringar. „Fossar bjóða sérsniðna og persónulega þjónustu og eru í fararbroddi þegar kemur að tengingu íslensks atvinnulífs við alþjóðlegt fjárfestingarumhverfi. Eins leggja Fossar mikið upp úr því að vera í fararbroddi íslenskra fyrirtækja í samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni, jafnt í eigin starfsemi sem í gegnum víðtæk áhrif starfseminnar á viðskiptavini og aðra. Til dæmis hafa Fossar verið brautryðjandi í umsjón með útgáfu grænna skuldabréfa á Íslandi. Fossar, sem stofnaðir voru 2015, tilheyra samstæðu Skaga.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×