Erlent

Fyrr­verandi ísraelskir foringjar biðla til Trump að ljúka stríðinu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Fyrrum leiðtogarnir biðja Donald Trump Bandaríkjaforseta um að beita ísraelsk stjórnvöld þrýsting.
Fyrrum leiðtogarnir biðja Donald Trump Bandaríkjaforseta um að beita ísraelsk stjórnvöld þrýsting. EPA

Tæplega sex hundruð fyrrum foringjar í öryggisþjónustu Ísraels biðja Bandaríkjaforseta um að setja þrýsting á Ísraela til að enda stríðsátökin á milli Ísrael og Hamas.

„Það er okkar faglega álit að Hamas ógnar ekki lengur Ísrael,“ skrifa foringjarnir í opnu bréfi til Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Meðal þeirra sem skrifuðu undir voru fyrrum leiðtogar úr Mossad, Shin Bet, fyrrverandi forsætisráðherra og varnarmálaráðherrar en alls voru 550 manns sem skrifuðu undir bréfið.

„Í upphafi var þetta stríð bara stríð, verndarstríð, en núna þegar við höfum náð öllum okkar hernaðarlegu markmiðum, er þetta stríð hætt að vera bara stríð,“ segir Ami Ayalon, fyrrverandi framkvæmdastjóri öryggisþjónustunnar Shin Bet, í myndbandi en France24 greinir frá.

Þeir biðla til Trumps að leiða Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, í átt að vopnahléssamkomulagi og semja um að fá alla ísraelska gísla í haldi Hamas aftur heim.

Ísraelar hafa verið undir miklum þrýstingi frá alþjóðasamfélaginu undanfarið en Kanada, Bretland og Frakkland hyggjast viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki á þingi Sameinuðu þjóðanna í september. Átökin hófust 7. október 2023 og hafa því staðið í tæpa 22 mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×