Formúla 1

Leclerc ó­vænt á ráspól í Ung­verja­landi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Úrslitin í tímatökunni virtust meira að segja koma Leclerc sjálfum á óvart.
Úrslitin í tímatökunni virtust meira að segja koma Leclerc sjálfum á óvart. Mark Thompson/Getty Images

Flestir bjuggust við að baráttan um ráspólinn í ungverska kappakstrinum yrði milli McLaren mannanna Lando Norris og Oscar Piastri, en Charles Leclerc hjá Ferrari var fljótastur í tímatökunum.

Veðrið var Leclerc hagstætt, hann réði mun betur en aðrir við vindinn á þriðja tímatökusvæðinu. Ferrari gat þó ekki fagnað lengi því Lewis Hamilton hélt hræðilegu gengi sínu í tímatökunum áfram og verður tólfti af stað á morgun.

Engu að síður fer Ferrari bíll fyrstur af stað í fyrsta sinn á tímabilinu þegar ræst verður í ungverska kappakstrinum klukkan tvö á morgun.

Leclerc var 0,026 sekúndum sneggri en Piastri og 0,041 sekúndu sneggri en Norris, sem verða annar og þriðji.

Mercedes ökuþórinn George Russell verður svo sá fjórði og Fernando Alonso fimmti. Alonso hefur verið að glíma við meiðsli og tók ekki þátt í fyrstu æfingunni á föstudag, en hristi þau af sér og náði bestu tímatöku tímabilsins í dag.

Ungverski kappaksturinn verður í beinni Sýn Sport Viaplay frá klukkan hálf tvö á morgun, sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×