Formúla 1

Komst við er hann ræddi Schumacher

Aron Guðmundsson skrifar
Formúlu 1 goðsögnin og sjöfaldi heimsmeistarinn Michael Schumacher
Formúlu 1 goðsögnin og sjöfaldi heimsmeistarinn Michael Schumacher Vísir/Getty

Andy Wilman, fram­leiðandi, komst við er hann ræddi ör­lög þýska ökuþórsins Michael Schumacher sem hann hafði kynnst í gegnum störf sín. Wilman sagði ör­lög Schumacher­s dapur­leg, hann hefði gert svo mikið fullur heilsu í næsta kafla síns æviskeiðs eftir For­múlu 1 ferilinn.

Wilman var aðalframleiðandinn á hinum geysivinsælu þáttum Top Gear með þeim Jeremy Clarkson, Richard Hammond og James May og í gegnum starf sitt komst hann í kynni við sjöfalda Formúlu 1 heimsmeistarann Michael Schumacher. 

Lítið sem ekki neitt hefur spurst til Schumachers síðan að hann slasaðist illa á höfði í skíðaslysi í frönsku Ölpunum fyrir rúmum tólf árum síðan eftir að ökumannsferlinum lauk.

Í hlaðvarpsþættinum High Performance sagði Wilman frá kynnum sínum af Michael Schumacher og dylst engum hversu áhrifamikil þau kynni voru fyrir Wilman sem komst við er hann ræddi þýsku goðsögnina. 

Wilman og Jeremy Clarkson ræddu við Schumacher í þáttaröð sem bar nafnið The Superstars of Speed. Viðtalið var tekið á bar í Mugiello, bæ á Ítalíu þar sem að Ferrari liðið var við æfingar á þeim tíma.

Það vakti athygli á sínum tíma og enn þann dag í dag hversu opinskár Schumacher var í viðtalinu. Þjóðverjinn var ansi erfiður við að eiga innan brautar og gerði gjörsamlega allt til þess að vinna. Meðal annars að keyra keppinauta sína út úr braut í baráttu þeirra um heimsmeistaratitilin í Formúlu 1. 

Ræddi hann það atvik í viðtalinu og greiddi götu Wilman og Clarkson að myndefni af umræddu atviki þegar að Bernie Ecclestone, einráður Formúlu 1 á þeim tíma, ætlaði að standa í vegi fyrir því. 

„Hann skipar stóran sess hjá mér þessi maður,“ sagði Wilman um Schumacher og komst auðsjáanlega við á þeirri stundu og þáttastjórnandinn Jake Humphrey spurði hann út í það.

„Örlögin eru dapurleg,“ svaraði Wilman og átti þar við skíðaslysið sem Schumacher lenti í og örlög hans þar. „Maður með hans eiginleika. Á meðan fara aðrir kaldrifjaðir einstaklingar í gegnum lífið án þess að lenda í neinu.

Hann hefði gert svo mikið sem sendiherra hvaða málsstaðar sem er sem hann hefði tekið að sér eftir ökumannsferilinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×