Fótbolti

Frá Inter til Serbíu og gæti mætt Blikum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Marko Arnautovic er leikmaður sem Íslandsmeistarar Breiðabliks gætu þurft að glíma við á næstunni.
Marko Arnautovic er leikmaður sem Íslandsmeistarar Breiðabliks gætu þurft að glíma við á næstunni. Alex Pantling - UEFA/UEFA via Getty Images

Austurríski framherjinn Marko Arnautovic er genginn til liðs við Rauðu stjörnuna frá Belgrad í Serbíu og einn af hans fyrstu leikjum fyrir félagið gæti orðið gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks.

Arnautovic, sem er 36 ára gamall, hefur komið víða við á ferli sínum, en hann lék síðast með Inter í ítölsku úrvalsdeildinni.

Hann hóf feril sinn hjá hollenska liðinu Twente áður en hann var lánaður til Inter á sínum yngri árum, en síðan þá hefur hann leikið með Werder Bremen, Stoke, West Ham, Shangai SIPG og Bologna áður en hann gekk aftur í raðir Inter.

Samningur hans við ítalska stórveldið rann hins vegar út í sumar og nú hefur Rauða stjarnan tryggt sér þjónustu þessa reynslumikla leikmanns.

Það gæti því farið svo að einn af fyrstu leikjum Arnautovic fyrir Rauðu stjörnuna verði gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. 

Rauða stjarnan mætir Lincoln Red Imps frá Gíbraltar í annarri umferð á sama tíma og Blikar mæta pólska liðinu Lech Poznan. Fyrri leikirnir fara fram í kvöld og seinni leikirnir á miðvikudaginn í næstu viku.

Sigurvegarar þessara einvíga mætast svo í þriðju umferð og því gætu Íslandsmeistararnir þurft að glíma við Arnautovic, sem á 184 leiki og 43 mörk að baki í ensku úrvalsdeildinni.

Fyrri leikir Þriðju umferðar forkeppni Meistaradeildar Evrópu fara fram 5. og 6. ágúst og seinni leikirnir 12. og 13. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×