Erlent

Hátt í sjö­tíu drepnir í bið­röð eftir mat

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Í heildina hafa 88 íbúar á Gasa verið drepnir í árásum Ísraela það sem af er degi. 
Í heildina hafa 88 íbúar á Gasa verið drepnir í árásum Ísraela það sem af er degi.  EPA

Að minnsta kosti 67 íbúar á Gasa voru drepnir í skotárás Ísraelshers meðan þeir biðu í röð eftir matarskammti við matarstand Sameinuðu þjóðanna í norðurhluta Gasa í dag. 

Þetta hefur Reuters eftir heilbrigðisyfirvöldum á Gasa. Ísraelsher boðaði rýmingar á nokkrum svæðum í miðhluta Gasa í dag. Auk hinna 67 sem stóðu í röðinni var tilkynnt um sex mannföll í nágrenninu. 

Árásin er ein af mörgum, nærri daglegum, sem Ísraelsher hefur gert á óbreytta borgara í leit að aðstoð eða matarskammti. Síðast í gærmorgun voru 36 Gasabúar drepnir á leið að hjálparstöð, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum. 

Hungursneyð hefur ríkt á svæðinu um nokkurt skeið. Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gasa létust átján úr hungri síðasta sólarhring á svæðinu.

Reuters hefur eftir Ísraelsher að hermenn hafi skotið í átt að hópi fólks á norðurhluta Gasa til að fjarlægja það sem herinn kallaði „bráða ógn“. Vísbendingar væru um að færri hefðu látist en tölur heilbrigðisyfirvalda á Gasa gæfu í skyn. 

Þá hefur miðillinn eftir Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) að skömmu eftir að 25 flutningabílar hlaðnir neyðarbirgðum hafi ekið inn á svæðið og mætt stórum hópum soltinna íbúa. Þá hafi herinn hafið að skjóta á íbúana. 

Heilbrigðisyfirvöld á Gasa segja að í heildina hafi 88 íbúar á Gasa verið drepnir í árásum Ísraela það sem af er degi.


Tengdar fréttir

Tugir drepnir á meðan þau biðu eftir matarskammti

Rúmlega fimmtíu Palestínubúar voru drepnir og um 200 særðir á Gasa á meðan þau biðu þess að bílum á vegum Sameinuðu þjóðanna með hjálpargögn yrðu ekið inn á Khan Younis. Það er samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu á Gasa og spítala á svæðinu.

Ísraelar stunda skipulagt niðurrif á heilu bæjunum í trássi við alþjóðalög

Síðan vopnahléi Ísraels og Hamas lauk í mars síðastliðnum hefur Ísraelsher rifið niður heilu þorpin og hverfin ýmist með sprengingum, vinnuvélum eða hvoru tveggja. Þúsundir bygginga hafa verið jafnaðar við jörðu og sumar þeirra voru lítið sem ekkert skemmdar fyrir. Þetta er brot á Genfarsáttmálanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×