Innlent

Met í verð­tryggðum lán­veitingum líf­eyris­sjóðanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fasteignasalar segja markaðinn á valdi kaupenda um þessar mundir.
Fasteignasalar segja markaðinn á valdi kaupenda um þessar mundir. Vísir/Vilhelm

Einungis 20 prósent tekjuhæstu einstaklingarnir hafa efni á að kaupa einir íbúðir sem kosta 60 milljónir króna eða meira, ef gert er ráð fyrir 80 prósent veðsetningarhlutfalli.

Framboð nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu sem verðlagðar eru undir 60 milljónum króna er þó verulega takmarkað.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

„Allt að 80% einstaklinga stæðust ekki greiðslumat fyrir nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu með lágmarks eigið fé. Pör standa betur að vígi með aðstoð verðtryggingar,“ segir í skýrslunni.

Myndin væri dekkri ef ekki væri fyrir verðtrygginguna, segir raunar í skýrslunni, þar sem einnig er greint frá því að nýtt met hafi verið sett í verðtryggðum lánveitingum lífeyrissjóða í maí. Heimili tóku ný verðtryggð lán hjá lífeyrissjóðum fyrir 12 milljarða króna.

Ný verðtryggð lán hjá bönkum námu 8,7 milljörðum króna en uppgreiðslur á óverðtryggðum lánum til banka námu 7,4 milljörðum króna.

Kaupsamningar í maí voru 1.010 talsins en hlutfall nýrra íbúða sögulega lágt. Nýjum íbúðum í sölu fjölgar enn en seljast hægar en eldri íbúðir. Samkvæmt greiningu HMS eru til að mynda 61 prósent líkur á að notuð, ódýr og lítil íbúð seljist innan 60 daga en 11 prósent að ný, dýr og meðalstór íbúði seljist á sama tíma.

HMS segir ýmsar ástæður liggja að baki þess að fólk vilji heldur kaupa notaðar íbúðir, meðal annars verri birtuskilyrði í nýbyggingum, takmarkaður bílastæðafjöldi og gallar í nýbyggingum.

Hér má finna skýrsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×