Erlent

„Tæknivilla“ hafi valdið á­rás á fólk sem var að sækja sér vatn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjöldi fólks hefur látið lífið þar sem það hefur freistað þess að ná sér í vatn, mat eða önnur hjálpargögn.
Fjöldi fólks hefur látið lífið þar sem það hefur freistað þess að ná sér í vatn, mat eða önnur hjálpargögn. Getty/Anadolu/Abed Rahim Khatib

Ísraelsher segir tæknileg mistök hafa valdið því að drónaárás var gerð á hóp fólks sem var að ná sér í vatn í al-Nuseirat flóttamannabúðunum á Gasa í gær.

Tíu létust, þar af sex börn og að minnsta kosti sextán særðust, þar af sjö börn.

Að sögn talsmanna hersins beindist árásin gegn ónafngreindum hryðjuverkamanni en vegna „tæknivillu“ féll sprengjan tugi metra frá skotmarkinu. Þeir segja atvikið í skoðun.

Að sögn BBC náðist eftirleikurinn á myndskeið, sem sýnir fólk hlaupa á vettvang til að aðstoða fórnarlömbin sem liggja innan um vatnsílát.

Alþjóðaráð Rauða krossins greindi frá því í gær að fleiri hefðu verið fluttir á sjúkrahús samtakanna í Rafah á síðustu sex vikum en á tólf mánuðum þar á undan. Þar af hefðu 132 fengið meðferð á laugardag, flestir vegna byssuskota.

31 hefði látist.

Fjöldi fólks hefur látist í árásum nærri stöðum þar sem mat og neyðargögnum er dreift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×