Innlent

Veiðigjaldið aftur í nefnd og við­ræður komnar á lokametra

Agnar Már Másson skrifar
Sigurjón Þórðarson er þingmaður Flokks fólksins og formaður atvinnuveganefndar alþingis.
Sigurjón Þórðarson er þingmaður Flokks fólksins og formaður atvinnuveganefndar alþingis. Vísir/Anton brink

Veiðigjaldið er aftur á dagskrá á fundi atvinnuveganefndar í dag en fundurinn er hluti af þinglokaviðræðum. Búist er við stuttum fundi sem hefst klukkan 17 í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru viðræður á lokametrunum.

Þingfundi lauk um kl. 16.30 í dag og hefst aftur kl. 10 á morgun. Veiðigjaldið var ekki á dagskrá.

Fulltrúar skattsins munu mæta á fund atvinnuveganefndar í dag sem er haldinn kl. 17 og fara yfir útreikninga sem þingmenn hafa deilt um síðustu vikuna, segir Sigurjón Þórðarson nefndarformaður í samtali við fréttastofu. 

Stjórnarandstæðingar hafa viljað taka veiðigjaldafrumvarpið aftur inn í nefnd frá því að Morgunblaðið greindi frá því á mánudag að með frumvarpinu yrði veiðigjald lagt á fimm fisktegundir samkvæmt „kerfisbundnu ofmati á hagnaði“. Var það krafa stjórnarliða að farið yrði yfir þá útreikninga áður en fram væri haldið.

Samkvæmt heimildamönnum Vísis í þinghúsinu er fundurinn í atvinnuveganeffndinni haldinn að kröfu stjórnarandstöðunnar sem hluti af þinglokasamningum. Búist er við stuttum fundi. Viðræður séu á lokametrunum og stefnt sé að því að þingflokksformenn hittist aftur eftir fund atvinnuveganefndar.

Veiðigjöldin hafa verið helsta bitbeinið í viðræðum um þinglok. Umræðan um frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra er orðin þriðja lengsta þingumræða frá því að þingið var sameinað í eina málstofu fyrir þremur áratugum árið 1991. 

Þingflokksformaður Viðreisnar sagði aftur á móti við Vísi fyrr í dag að þeirri umræðu þyrfti að ljúka með atkvæðagreiðslu. Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis sagði í morgun að fundahöld gærkvöldsins um framhald þingstarfa hefðu skilað árangri




Fleiri fréttir

Sjá meira


×