Innlent

Pilturinn á­frýjar ekki þyngsta mögu­lega dómi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Pilturinn er sautján ára og hefur því ekki verið nafngreindur.
Pilturinn er sautján ára og hefur því ekki verið nafngreindur. Vísir/Anton Brink

Hvorki ákæruvaldið né sakborningur menningarnæturmálsins svokallaða áfrýjuðu niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar. Í héraði var sakborningurinn, sautján ára piltur, dæmdur í átta ára fangelsi, en það er hæsta refsing sem hann gat mögulega fengið.

Hann var sakfelldur fyrir að ráða hinni sautján ára Bryndísi Klöru Birgisdóttur bana á Menningarnótt í fyrra. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir tvær tilraunir til manndráps, með því að stinga tvö önnur ungmenni sama kvöld.

Guðmundur St. Ragnarsson, verjandi piltsins, staðfestir við fréttastofu að málinu hafi ekki verið áfrýjað. Mbl.is greindi fyrst frá því.

Í ákærunni sagði að fimm ungmenni hefðu verið í bifreið í miðbæ Reykjavíkur þann 24. ágúst laust fyrir miðnætti á Menningarnótt þegar pilturinn réðst á þau. Pilturinn hefði brotið rúðu bílsins og stungið ítrekað með hníf í pilt sem sat í bílnum og stungið hann bæði í öxl og brjóstkassa. Ungmennin hefðu þá flúið bifreiðina en ein stúlka orðið eftir í honum.

Pilturinn hefði þá ráðist á hana og stungið með hnífnum í öxl, handlegg og hendi. Að þessu loknu hefði hann ráðist á Bryndísi Klöru og stungið hana í gegnum hjartað. Hún lést nokkrum dögum síðar af sárum sínum á Landspítalanum.

Fyrir dómi játaði pilturinn að hafa stungið ungmenninn þrjú. Hann sagði að um væru að ræða stærstu mistök lífs hans og hann myndi sjá eftir gjörðum sínum alla ævi.

Líkt og áður segir var ekki hægt að veita honum þyngri fangelsisdóm. Það er vegna þess að í almennum hegningarlögum segir að ekki megi dæma mann í fangelsi lengur en í átta ár hafi hann framið brot sitt fyrir átján ára aldur.

Í héraði var honum einnig gert að greiða samtals um þrettán milljónir í miskabætur og um 25 milljónir króna í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×