Skoðun

Ríkis­fyrir­tæki sem virðir ekki æðsta valdið

Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Nýleg svör fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn undirritaðrar um kostnað ríkisins vegna málaferla ÁTVR gegn heildsölum vekja upp alvarlegar spurningar um ábyrgð og stjórnsýslu ríkisins. Þar kom fram að ríkið hefur greitt milljónir króna í málskostnað vegna mála sem það hefur tapað – þar á meðal mál þar sem Hæstiréttur hefur dæmt að synjun ÁTVR á vörum innflytjanda hafi verið ólögmæt.

Það sem vekur mesta athygli er þó ekki fjárhagslegi kostnaðurinn heldur það, að ÁTVR hefur ekki enn brugðist við dómi Hæstaréttar. Þrátt fyrir að dómurinn hafi fellt ákvörðun ÁTVR úr gildi, virðist stofnunin halda fast við fyrri synjun. Þarna erum við að horfa upp á opinbera stofnun sem virðir ekki niðurstöðu æðsta dómsvalds landsins.

Við búum í réttarríki. Dómar Hæstaréttar eru ekki tillögur – þeir eru bindandi. Það hlýtur að vekja spurningar: Ef það er ekki ráðherra sem ábyrgð á því að stofnun í ráðuneyti hans fylgi lögum, hver þá? Er það virkilega þannig að stofnanir geti starfað í tómarúmi ábyrgðar?

Við verðum að skoða hvort það fyrirkomulag sem ríkisfyrirtæki eins og ÁTVR starfa undir – með lögbundna einokun, en í formi ohf. – stuðli að minni gagnsæi og ábyrgð. Og við verðum að tryggja að stjórnsýslan virði dómstóla og grundvallarreglur réttarríkisins.

Þetta er ekki spurning um eitt fyrirtæki eða eitt mál – heldur traust á stjórnsýsluna í heild.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×