Innlent

Stóra verkefnið að vinna aftur traust borgar­búa

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Pétur var heldur betur sáttur með niðurstöður kvöldsins. 
Pétur var heldur betur sáttur með niðurstöður kvöldsins.  Vísir/Lýður Valberg

Pétur Marteinsson nýkjörinn oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík segir stærsta verkefni flokksins í komandi kosningum að vinna traust borgarbúa til baka. Hann segir gott gengi í prófkjörinu til marks um að fólk vilji breytingar í borginni.

„Mér líður stórkostlega. Þetta er skrítin tilfinning, þetta hefur verið svo ótrúlega knappur tími og skemmtileg barátta,“ segir Pétur um kosningabaráttuna. Hann vann öruggan sigur með 3063 atkvæðum en Heiða Björg Hilmisdóttir hlaut 1424 atkvæði.

„Mér finnst það sýna Samfylkinguna í hnotskurn. Það er tekið á móti nýjum manni, það hefur verið talað um að þetta sé breiðfylking.“

Hann segir niðurstöðurnar til marks um að Reykvíkingar vilji breytingar í borginni. Hann segir að það yrði frábært ef Heiða Björg tæki öðru sætinu.

„Hún er mjög reynslumikil og ég reikna með því. Svo verðum við bara að hittast og skerpa línurnar fyrir vorið. Keppnin og leikurinn er í vor. Þá þarf Samfylkingin að sýna fram á að við erum flokkur sem mun halda áfram að leiða í borginni, sýna fram á breytingar og bjarta tíma fram undan og það er það sem við gerum, hvernig sem listinn verður.“

Hann segist skynja áhugann hjá fólki fyrir flokknum og telur að innst inni séu Reykvíkingar jafnaðarmenn. 

Hann frábiður sér tal um að Kristrún hafi staðið að baki framboði hans, hann segist hafa fundið stuðning frá henni en það sé allt og sumt.

„Við höldum alltaf að þetta sé svo plottað, þetta er það ekki. Ég fer fram af því að mig langaði að gera breytingar í borginni. Ég geri þetta algjörlega sjálfur,“ segir Pétur. 

Hann segir of snemmt að segja til um hvort hann yrði opinn fyrir álíka samstarfi og Samfylkingin er í núna í borginni. Hann útilokar ekkert en fleira muni ráðast þegar nær dregur og búið er að raða á lista annarra flokka. 

Í sigurræðu sinni þakkaði Pétur öllum sem komu að prófkjörinu og sagði keppnina hafa verið drengilega. Hann bað salinn um að klappa fyrir Heiðu fyrir góða keppni og góða þjónustu í þágu Reykvíkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×