Innlent

„Ég á þetta og má þetta“

Jakob Bjarnar skrifar
Guðrún sótti að Ingu í fyrirspurnartíma en Inga lét Guðrúnu ekki eiga neitt inni hjá sér og svaraði af miklum krafti.
Guðrún sótti að Ingu í fyrirspurnartíma en Inga lét Guðrúnu ekki eiga neitt inni hjá sér og svaraði af miklum krafti. vísir/vilhelm

Heldur hitnaði í kolum, og kannski eins og við mátti búast, þegar Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins beindi fyrirspurn til Ingu Sæland formanns Flokks fólksins. Hún vildi vita hvernig stæði á þessu hringli með málaflokka; að barnamálaráðherra væri kominn með uppbyggingu dvalarheimila á sínar herðar.

„Í sameiginlegri yfirlýsingu forsætisráðuneytisins, félags- og húsnæðismálaráðuneytisins og barna- og menntamálaráðuneytisins frá 17. janúar síðastliðnum segir að hæstvirtur barna- og menntamálaráðherra „fari með stjórnarmálefni um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða fyrir eldra fólk“, en að ábyrgðin á málaflokknum sé engu að síður hjá félags- og húsnæðismálaráðherra, enda hafi málaflokkurinn ekki verið fluttur á milli ráðuneyta.“

Hver ber lagalega ábyrgð?

Þannig hóf Guðrún mál sitt en hún heggur hér í sömu knérunn og Ólafur Adolfsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigríður Á. Andersen, þingflokksformaður Miðflokksins, höfðu gert fyrr í vikunni. 

Guðrún sagði að í þessu fælist að vald og ábyrgð á málaflokknum hafi nú verið klippt í sundur: Barna- og menntamálaráðherra ráði málaflokknum en félags- og húsnæðismálaráðherra beri ábyrgð á honum. Guðrún sagði slíkt fyrirkomulag bersýnilega brjóta í bága við bæði stjórnarskrá og lög um stjórnarráðið.

„Þrátt fyrir þessa skýru sameiginlegu yfirlýsingu á vefsíðu stjórnarráðsins fullyrti hæstvirtur forsætisráðherra að hún væri röng í óundirbúnum fyrirspurnartíma síðastliðinn mánudag, þar sem hún hélt því fram að lagaleg ábyrgð á málaflokknum væri hjá barna- og menntamálaráðherra. 

Guðrún sagðist í áfalli eftir að hafa heyrt svör Ingu í fyrirspurnartíma á þingi nú fyrir hádegi.Vísir/Anton Brink

Í ljósi þess að tvennum sögum fer um ábyrgð á þessum mikilvæga málaflokki vil ég spyrja hæstvirtan barna- og menntamálaráðherra í hvað sé hið rétta í málinu; tilkynning ráðherranna á vefsíðu stjórnarráðsins eða orð hæstvirts forsætisráðherra í pontu Alþingis? Hver ber lagalega ábyrgð á málaflokknum?“ spurði Guðrún.

Ráðuneytisstjórinn stýrt verkinu af miklum skörungskap

Inga ætlaði ekki að láta Guðrúnu eiga neitt inni hjá sér, ekki frekar en venjulega og svaraði að hætti hússins. Uppbygging hjúkrunarheimila sé liður í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hún sagði verkefnið í miðju ferli og það væri ekki sinn háttur að vilja stoppa í miðri á.

„Ég hef talað við félags- og húsnæðismálaráðherra, við erum í sama flokki og erum að róa í sömu átt.“

Inga Sæland formaður Flokks fólksins horfir hér blíðum augum á forsætisráðherra þjóðarinnar, sem styður Ingu í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur. Vísir/Anton

Og Inga bætti um betur og sagði það með ólíkindum að tönnlast á þessu máli nú þegar uppbyggingin gengi mjög vel. Þau væru að losa um biðlistastíflur og það gengi mjög vel.

„Við erum að vinna þetta sem einn maður. Það tekur tíma að koma sér inn í málaflokkana. Nú er ég með eins árs forskot á málefni hjúkrunarheimila með mínum ráðuneytisstjóra sem hefur stýrt þessu af miklum skörungskap.“

Hvers konar svar er þetta?

Inga sagðist vilja sjá um þetta, hún hefði verk að vinna og athyglisvert væri að stjórnarandstaðan kæmi ítrekað í púlt með fötur fullar af grjóti til að hægja á þeim hjólum sem þau væru að keyra. „Það er til háborinnar skammar.“

Guðrún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og spurði: 

„Hvers konar svar er þetta? Er stjórnarskráin í alvörunni fata full af grjóti?“

Hún sagðist í áfalli yfir svari Ingu og að allt í einu væri ráðuneytisstjórinn dreginn upp sem mikilvægasti aðilinn í þessu verkefni? Treystir Inga ekki hæstvirtum Ragnari Þór ráðherra sínum? Fyrst ríkisstjórnin kýs að ganga hér um stjórnarskrána með svo léttvægum hætti. Svona molnar undan réttindum okkar, við sjáum það í stöðunni í alþjóðamálum hvernig gengið hefur verið um lög og reglur með furðulegum hætti.“

Guðrún taldi ráðherra umgangast reglur af furðu mikilli léttúð. Þegar Inga mætti í seinna andsvarið gall í henni utan úr sal: „Ég á þetta og má þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×