Skoðun

Tíma­bær endur­skoðun jafn­launa­vottunar

Hákon Skúlason skrifar

Ég styð jafnrétti á vinnumarkaði og þá grundvallarhugmynd að fólk fái jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf, óháð kyni. Um það ætti enginn ágreiningur að vera. Einmitt þess vegna vil ég deila minni reynslu af jafnlaunavottun og um leið fagna þeim breytingum sem nú hafa verið lagðar fram á Alþingi.

Ég hóf vinnu við jafnlaunavottun hjá mínu fyrirtæki í ágústmánuði 2022 en skilafrestur átti að vera um þau áramót. Það sem í fyrstu virtist vera afmarkað stjórnsýsluverkefni þróaðist fljótt í margra mánaða ferli. Umsóknum var hafnað, gögn send til baka, breytingar gerðar, nýjar umsóknir sendar inn og ítrekað sótt um lengri fresti. Þetta tók ekki daga eða vikur, heldur mánuði. Að lokum var umsóknin samþykkt í apríl 2023 eftir tæplega átta mánaða vinnu og margar beiðnir um frest á skilum.

Hjá fyrirtækinu sem ég stýri eru allir starfsmenn í hlutastarfi og fólk vinnur mismikið milli mánaða, vinnutími sveiflast og starfsmannavelta er há. Þess vegna var var erfitt að skrá inn í fyrirfram uppsett form sem miðaði við föst stöðugildi eins og um hefðbundinn vinnustað væri að ræða. Þetta gerði ferlið flóknara, tímafrekara og íþyngjandi. Skyndilega þurfti ég að verða sérfræðingur í flóknu regluverki sem hafði ekkert með kjarnastarfsemi fyrirtækisins að gera.

Á sama tíma var mér ítrekað bent á að það væri „mun einfaldara“ að kaupa ráðgjafaþjónustu. Kostnaðurinn sem nefndur var hljóðaði upp á hundruð þúsunda króna, jafnvel milljónir. Með þessari lagaskyldu hafði myndast heilt vistkerfi ráðgjafa, hugbúnaðarfyrirtækja og sérhæfðra deilda sem lifðu á því að þjónusta jafnlaunavottunina. Ég valdi að fara ekki þá leið og ákvað að vinna þetta allt innanhúss. En ferlið var óeðlilega tímafrekt og langt frá því að vera í takt við þann fjölbreytileika sem raunverulega einkennir íslenskt atvinnulíf.

Þess vegna fagna ég sérstaklega þeirri tillögu sem Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, hefur nú lagt fram um að leggja jafnlaunavottun af í núverandi mynd og innleiða einfaldara fyrirkomulag í staðinn „reglubundna skýrslugjöf um kynbundinn launamun“. Sú leið snýst ekki um að veikja jafnrétti, heldur um að ná sömu markmiðum með skynsamlegri og hagkvæmari hætti.

Það sem gerir þetta enn ánægjulegra er að þessi breyting varð í kjölfar þess ríkisstjórnin kallaði eftir hugmyndum frá almenningi um hvernig mætti hagræða í rekstri ríkisins og draga úr óþarfa regluverki. Ég sendi þá inn tillögu byggða á þessari reynslu minni – og nú sé ég hana verða að veruleika.

Jafnrétti á vinnumarkaði á ekki að gera þá kröfu að framkvæmdastjórar breytist í sérfræðinga í flóknu regluverki eða að fyrirtæki neyðist til að kaupa dýra ráðgjafa til að standast kerfiskröfur. Markmiðið er rétt, en leiðin þarf að vera framkvæmanleg, sanngjörn og í takt við raunveruleikann. Endurskoðun jafnlaunavottunar er því ekki skref aftur á bak heldur tímabært skref í rétta átt.

Höfundur er framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Viðreisn Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×