Innlent

„Þetta er hans á­kvörðun að segja af sér“

Oddur Ævar Gunnarsson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar er vonsvikin vegna málsins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar er vonsvikin vegna málsins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar segist telja að það hafi verið rétt ákvörðun hjá Guðbrandi Einarssyni að segja af sér þingmennsku. Hún segir hann nú fá svigrúm til að líta inn á við og taka utan um fjölskyldu sína.

Líkt og komið hefur fram hefur Guðbrandur sagt af sér þingmennsku vegna tilraunar til að kaupa vændi árið 2012. Hann var yfirheyrður af lögreglu á sínum tíma en segist ekki hafa verið ákærður. Hann tók ákvörðun um afsögn þegar Vísir ætlaði að fjalla um málið, sagðist hafa gert stór mistök sem hann harmi mjög.

Vonsvikin

Þorgerður Katrín segir í samtali við Vísi að hún hafi fyrst frétt af máli Guðbrands síðdegis í gær. Þá hafi Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar hringt í hana og upplýst hana um málið en Þorgerður er stödd erlendis.

Hver voru þín viðbrögð þá?

„Vonbrigði. Því þetta er auðvitað erfitt mál en um leið að þá tel ég að með því að segja af sér hafi hann Guðbrandur tekið rétta ákvörðun og hann er búinn að gera það sem hann getur sjálfur til þess að axla ábyrgð og senda þar með mjög skýr skilaboð. Hann sjálfur er að axla ábyrgð í þessu erfiða máli og með því er hann að gera rétt að mínu mati.“

Settir þú einhverja pressu á hann að segja af sér eða var hann búinn að ákveða það sjálfur?

„Þetta er hans ákvörðun að segja af sér og nú hefur hann líka svigrúm til að líta inn á við og taka utan um fjölskylduna sína. Ég held að það sé líka það eðlilegasta sem maður hugsar um.“

Þú varst ekki upplýst um þetta áður en hann tók við þingmennsku, þú varst bara að komast að þessu fyrst í gær?

„Já, bara seinni partinn í gær, á milli fjögur og fimm þá frétti ég þetta í fyrsta sinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×