Innlent

Jónas Már vill leiða Sam­fylkingu í Kópa­vogi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Jónas segist hafa hugsað málið frá því í haust.
Jónas segist hafa hugsað málið frá því í haust. Aðsend

Jónas Már Torfason lögfræðingur vill leiða framboðslista Samfylkingarinnar í Kópavogi. Jónas starfar sem lögfræðingur á lögmannsstofunni Réttur - Aðalsteinsson & Partners. Jónas er uppalinn í Kópavogi og flutti nýlega aftur heim. Jónas segir það hans markmið að mynda meirihluta í Kópavogi. 

Í tilkynningu frá Jónasi kemur fram að áður en hann flutti heim hafi hann starfað í banka- og fjármögnunarteymi dönsku lögmannsstofunnar Plesner í Kaupmannahöfn. Áður hefur Jónas starfað sem lögfræðingur á LOGOS, sem blaðamaður á Fréttablaðinu og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

„Ég leiddi fyrst hugann að þessu síðasta haust. Þá bjuggum við enn í Danmörku og höfðum ákveðið að flytja heim, ég var í heimsókn á landinu og ætlaði að fara í kvöldsund í Kópavogslaug einn sunnudag eins og ég gerði oft meðan ég bjó á landinu, en kom þar að lokuðum dyrum eftir að opnunartími hafði verið skertur, sem mér fannst alveg glatað. Svo þegar það fór að spyrjast út að ég væri að flytja heim fékk ég slatta af hvatningu, stigavaxandi, en fór ekki að hugsa þetta alvarlega fyrir en í haust eftir að við fluttum heim og búin að koma okkur fyrir,“ segir Jónas í samtali við fréttastofu um

Rými til bóta

Jónas er giftur Andreu Gestsdóttur lækni og á með henni þrjár dætur, tvíburana Ölmu Jóhönnu og Vigdísi Sölku, fjögurra ára, og Svövu Sóllilju, átta mánaða. Foreldrar Jónasar eru Torfi F. Jónasson læknir og Alma Möller, heilbrigðisráðherra. 

Í tilkynningu kemur fram að hann hafi alist upp í Kópavogi. Það sé gott að búa þar en hann telji rými til bóta. 

„Fyrir nýja forgangsröðun, nýja sýn og nýja forystu. Umræðan verður oft stór á vettvangi stjórnmálanna en lífið á sér stað í hversdagsleikanum. Þar á áherslan að vera á daglegt líf Kópavogsbúa. Raunverulegar lausnir í þjónustu svo bæjarbúar geti einbeitt sér að því sem skiptir máli – að lifa sínu lífi í samfélagi við fjölskyldu sína, vini og nágranna,“ segir Jónas í tilkynningunni. 

Markmið að mynda meirihluta

Eins og stendur er Samfylkingin aðeins með einn bæjarfulltrúa í Kópavogi, Bergljótu Kristinsdóttur, sem hefur gefið út að hún ætli ekki aftur fram.

„Síðustu úrslit voru ekki þar sem við viljum vera. Samfylkingin er og á að vera burðarflokkur og á að vera það líka í Kópavogi, sem er gamalt höfuðvígi jafnaðarmanna. Fyrst og fremst vil ég bjóða mig fram til að leiða breytta forgangsröðun og nýja forystu í bænum, þar sem daglegt líf Kópavogsbúa er í forgrunni. Markmiðið er að mynda meirihluta og vinna að þessum áherslum,“ segir Jónas í samtali við fréttastofu. 

Áður hefur verið tilkynnt um að Eydís Inga Valsdóttir bjóði sig fram í annað sæti í forvali Samfylkingar. Prófkjör fer fram þann 7. febrúar næstkomandi og er kosið í efstu fjögur sæti framboðslistans. Framboðsfrestur rennur út þann 12. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×