Viðskipti innlent

Grímur hættir hjá Bláa lóninu og Sig­ríður Margrét tekur við

Árni Sæberg skrifar
Sigríður Margrét tekur við af Grími.
Sigríður Margrét tekur við af Grími. Bláa lónið

Sigríður Margrét Oddsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Bláa lónsins hf. frá 16. mars næst komandi. Hún hefur undanfarin ár verið framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Grímur Sæmundsen, sem verið hefur forstjóri Bláa lónsins frá stofnun þess 1992 lætur þá af störfum en tekur sæti í stjórn félagsins á næsta aðalfundi.

„Við bjóðum Sigríði Margréti velkomna til starfa. Ég tel þetta réttan tímapunkt fyrir félagið að ég stígi nú til hliðar sem forstjóri og feli öðrum að takast á við þær áskoranir og tækifæri sem eru fram undan og hlakka mjög til samstarfsins við Sigríði Margréti,“ er haft eftir Grími í fréttatilkynningu þess efnis.

Frábært tækifæri

„Ég tel það frábært tækifæri að fá að leiða starfsemi Bláa lónsins í samvinnu við stjórn félagsins og þann góða hóp sem starfar hjá félaginu, þau hafa byggt upp fyrirtæki sem er einstakt á heimsvísu. Ég sé ótal tækifæri í starfsemi félagsins og í íslenskri ferðaþjónustu sem verður mjög áhugavert og gaman að fá að takast á við á næstu árum,“ er haft eftir Sigríði Margréti.

Í fréttatilkynningunni segir að um 800 starfsmenn starfi hjá Bláa lóninu. Undir rekstur félagsins falli samnefndur áfangastaður og tengd starfsemi á Reykjanesi, þar á meðal hótelin Retreat og Silica. Einnig eigi og reki félagið Highland base í Kerlingarfjöllum og sé að byggja upp baðstað, hótel og alhliða ferðaþjónustu í Þjórsárdal auk þess að undirbúa uppbyggingu á Hoffelli í Hornafirði. 

Þá eigi félagið hlutdeild í baðstöðunum Fontana við Laugarvatn, Jarðböðunum við Mývatn, Sjóböðunum á Húsavík og Vök á Egilsstöðum. Einnig hafi félagið á starfstíma sínum þróað og byggt upp húðvörufyrirtækið Blue lagoon skincare ehf., sem taki nú fyrstu skrefin í alþjóðlegum vexti á þeim vettvangi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×