Skoðun

Hafnar­fjörður í mikilli sókn

Orri Björnsson skrifar

Það kjörtímabil sem senn er liðið mun fara í sögubækur sem mesta uppbyggingarskeið í sögu Hafnarfjarðar. Það er sama hvaða mælikvarða við notum vöxtur og framþróun eru alltumlykjandi.

Íbúum mun fjölga um meira en 4.000

Íbúðum mun fjölga um meira en 2.000

Atvinnueignum mun fjölga um meira en 1.000

Á sama tíma hefur bærinn fjárfest gríðarlega í uppbyggingu á þjónustu og afþreyingu, ný íþróttamannvirki, göngustígar, hjólastígar atvinnu- og íbúðahverfi og svona mætti lengi telja.

Samstaða í bæjarstjórn

Skýr stefna og framtíðarsýn meirihlutans hefur notið stuðnings minnihlutaflokkanna í öllum megindráttum, það er jákvætt og sýnir vel að meirihlutinn er svo sannarlega á réttri leið. Núna eru innan við fimm mánuðir til kosninga og þeir verða vel nýttir. Vinnu við nýtt aðalskipulag mun ljúka, fjölmargar deiliskipulagstillögur munu klárast og framkvæmdir munu halda áfram af miklum krafti í ár og næstu árin. Skólar, leikskólar og umferðarmannvirki munu rísa auk þess sem áfram verður fjárfest í íþróttamannvirkjum og annarri afþreyingu.

Endurnýjað umboð og áframhaldandi sókn

Við Sjálfstæðismenn höfum leitt meirihlutasamstarf í Hafnarfirði síðustu þrjú kjörtímabil og munum að sjálfsögðu sækjast eftir áframhaldandi umboði til þess í maí næstkomandi. Það er engin ástæða til annars en að reikna með öflugum stuðningi Hafnfirðinga við áframhaldandi uppbyggingu og framfarir í bænum. Árangur okkar er góður og við höfum sérstaklega góða sögu að segja. Hafnfirðingar geta treyst því að við göngum vel um fjármuni þeirra og leggjum okkur fram um skynsamlega og góða stjórn á bænum.

Við setjum almannahag í forgang og höfum hagsmuni Hafnfirðinga ævinlega í fyrsta sæti.

Þannig viljum við vinna, áfram fyrir Hafnarfjörð!

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×