Innlent

Ríkis­stjórnin greiðir fyrir flutning hinna látnu til Ís­lands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ingibjörg Einarsdóttir, María Eiríksdóttir og Jóhanna Eivinsdóttir eru mæður drengja sem eru í fíknimeðferð í Suður-Afríku.
Ingibjörg Einarsdóttir, María Eiríksdóttir og Jóhanna Eivinsdóttir eru mæður drengja sem eru í fíknimeðferð í Suður-Afríku. Bylgjan

Móðir drengs í fíknimeðferð í Suður-Afríku segir gjörbreytingu hafa orðið á syni hennar í meðferðinni ytra undanfarnar vikur. Sjálfur líti hann svo á að það hafi bjargað lífi hans að fara í meðferðina. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að standa straum af kostnaði við að flytja táningsstúlku og ömmu hennar sem létust í bílslysi ytra heim til Íslands. 

Stúlka í 8. bekk og föðuramma hennar voru ásamt föður stúlkunnar að heimsækja bróður stúlkunnar í Suður-Afríku þegar þau lentu í hræðilegu bílslysi miðvikudaginn 17. desember. Stúlkan og amman létust og faðirinn er lífshættulega slasaður á sjúkrahúsi ytra.

Móðir stúlkunnar heitir María Sif Ericsdóttir en sonur hennar er í fíknimeðferð ytra. Þar er líka sonur Ingibjargar Einarsdóttur sem hefur hrundið af stað söfnun fyrir fjölskylduna hér á landi við allan þann kostnað sem til fellur vegna slyssins. Hann er mikill enda vegalengdin náttúrulega afar mikil.

Ingibjörg sagði stjórnvöld ekki hafa stigið fram og boðið fram aðstoð sína vegna þess kostnaðar sem fylgir.

„Nei, en ég bara ætla að halda í vonina. Að þau sjái sóma sinn í því að koma til móts við þau og vonandi bara taka þátt í öllum kostnaði sem kemur af þessum harmleik.“

Að viðtalinu loknu bárust þær upplýsingar frá forsætisráðuneytinu að á fundi ríkisstjórnarinnar föstudaginn 19. desember hefði verið samþykkt að veita fjölskyldu þeirra sem létust styrk af ráðstöfunarfé ríkisstjórnar til að standa straum af kostnaði við flutning hinna látnu heim til Íslands og annarra ráðstafana. Til stendur að dekka allan kostnaðinn.

María verið sem klettur

Ingibjörg hratt af stað söfnun sjálf til að standa straum af þessum kostnaði.

„Nei, ég er ekkert með neinar nákvæmar tölur enda er ég náttúrulega bara búin að vera sjálf í hálfgerðu móki. Ég setti þetta af stað fyrir hana vinkonu mína af því að við höfum náttúrulega bara verið saman í baráttunni og hún hefur bara verið mér klettur líka, í gegnum mitt. Og við fyrir hvor aðra.“

Umræðan í samfélaginu er mikil vegna slyssins sem greinilega hefur snert við fólki.

„Auðvitað líka út af ástæðunni sem að börnin okkar eru stödd þarna. Það gerir þetta náttúrulega þungt,“ segir Ingibjörg. Mæðurnar voru ekki sáttar við þau úrræði sem stóðu drengjunum til boða hér á landi og leituðu því alla leið til Afríku eftir meðferðarúrræðum.

Ríkið eigi að greiða fyrir meðferðirnar

Þáttastjórnandi í Bítinu sagðist telja að þjóðin myndi alveg sætta sig við að hið opinbera myndi taka sérstaklega utan um málið í ljósi aðstæðna. Komið hefur fram að meðferð í Suður-Afríku kosti heilmikla peninga.

„Ég held að það sé bara kominn tími til að þau sjái bara sóma sinn í að bara greiða allar meðferðir fyrir drengina þarna, allan kostnað sem að hlýst af því líka.“

Ingibjörg ræddi síðast við son sinn á föstudaginn.

„Ég veit að það hefur verið haldið ofboðslega vel utan um son hennar Maríu og utan um minn dreng líka. Auðvitað er þetta þungt fyrir þá og ég vona bara líka að þeir styðji hvor annan. Þetta er náttúrulega drengurinn sem huggaði mig og knúsaði mig þegar ég kom með minn dreng þarna og ég bara vona innilega að minn drengur verði líka þarna fyrir hann, svona sem klettur þótt að minn sé ungur. Ég vona að þetta þjappi þeim saman.“

Í ekkasogum þegar símtalið barst

Ingibjörg rifjar upp þegar María hringdi í hana með skelfilegu tíðindin frá Suður-Afríku.

„Hún var nýbúin að fá fréttirnar og ég var bara í ekkasogum,“ segir Ingibjörg. Hún hafi hringt í son sinn sem hafi líklega í mesta lagi greint annað hvert orð.

„Af því ég bara grét svo mikið. Hann náði að skilja stikkorð og náði að gera það sem þurfti að gera og og og ég náttúrulega var þarna með henni Maríu þangað til að hún fór út.“

Samskiptin séu stöðug og hún reyni að vera til staðar eins og hún geti.

Þvílíkur harmur

„En ég hef bara aldrei á ævinni brotnað svona eins og ég hef gert. Hún er búin að ná að halda í andliti í gegnum meirihlutann af þessari baráttu okkar þrátt fyrir að hún hafi verið ofboðslega þung. Maður er náttúrulega líka búinn að enda sjálfur með barnið sitt þrisvar sinnum meðvitundarlaust á milli heims og helju þannig að þetta er orðið þungt. En þetta er bara á einhverju öðru leveli. Þetta er bara þvílíkur harmur.“

Hún segist finna fyrir stuðningi þjóðarinnar.

„Mér hefur fundist fólk vera meira og meira með okkur í liði. Ég hef alveg tekið eftir því að umræðan hefur verið náttúrulega mikið meiri og maður er að sjá að fólk er að tjá sig um málið og því finnst þetta vera óásættanlegt að drengirnir okkar fái ekki aðstoð. En ég held að fólk sé að fylkja sér ennþá meira við bakið á okkur núna heldur en hefur verið.“

Tilnefndu sjálfar Guðmund Fylkisson

Mæðurnar eru meðal þeirra sem tilnefndar eru sem maður ársins hjá Vísi og Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

„Mér eiginlega bara brá. Við erum bara mömmur að reyna að bjarga ungunum okkar,“ segir Ingibjörg. Sjálf hafi hún hvatt fólk til að kjósa Guðmund Fylkisson lögregluþjón sem leitar að týndum börnum.

„Við vorum allar búnar að gera það. Við bjuggumst ekki við þessu.“

En þótt umræðan hafi breyst þá hafi ekki mikið annað breyst.

„Ég veit að þjóðin er reið og ég veit að fólkið vill þessar breytingar. Ég veit að Íslendingar vilja að börnin okkar fái hjálp. Það er bara eins og það sé einhver þvílík meinloka þarna hjá stjórnvöldum. Það þarf náttúrulega að gera breytingar. Það þarf að losa ákveðið fólk þarna út. Og það þarf bara nýtt fólk inn. Því miður þá held ég að það breytist ekkert við opnun á einu húsi af því að hugmyndafræðin er einfaldlega bara brotin og ónýt.“

Allt annað barn

Hún merkir mikla breytingu á syni sínum eftir nokkurra vikna dvöl ytra.

„Þetta er allt, allt annað barn. Þetta er bara barnið mitt aftur. Það er allt annað að tala við hann og hann gerir sér grein fyrir hlutunum núna. Það er búið að vinna með honum í gegnum það og hvaða áhrif þetta hefur haft á fjölskyldu hans. Það er bara hlýja núna að tala við hann. Maður finnur það alveg. Það kemur bara: „Mamma, ég er svo þakklátur fyrir þig“ og „ég elska þig svo mikið“ og sagði líka við mig fyrir stuttu síðan að hann væri líklega ekki á lífi ef ég hefði ekki farið með hann þangað til Afríku. Hann sá það bara sjálfur.“

Lítið hefur farið fyrir jólaundirbúningi undanfarna daga hjá Ingibjörgu enda fátt annað komist að en slysið.

Verða skrýtin jól

„Til allrar hamingju var ég búin að gera allar jólagjafir vegna þess að ég var að senda jólagjafir til míns drengs,“ segir Ingibjörg. Barnsfaðir Maríu, dóttir hans og móðir voru með jólagjafir fyrir drengina með sér í ferðinni út.

Drengirnir verði þrír saman og hún eigi bókað samtal við son sinn klukkan sex á aðfangadag, jóladag og fleiri daga yfir hátíðirnar.

„En þetta verða ofboðslega skrýtin jól og tilhugsunin að barnið mitt sé ekki hérna finnst mér ofboðslega erfið. Þessi harmur,“ segir Ingibjörg.

Hún hafi fyrst lagt í að fara í Bónus í gær.

„Ég var bara hrædd um að ég myndi brotna niður og fara að grenja í miðri Bónus. Þannig að þetta hefur verið voðalega erfitt, bara að halda andliti í þessu.“

Vill gera allt fyrir Maríu

Hjarta hennar sé hjá Maríu allan sólarhringinn alla daga vikunnar.

„María er bara manneskja sem er tilbúin til að hjálpa öllum. Hún er fyrst að hjálpa manni þrátt fyrir að hún hefði verið að ganga í gegnum sitt,“ segir Ingibjörg.

Þegar Guðmundur Fylkisson hafi verið í fríi hafi María hjálpað henni að leita að syni hennar.

„Þá hefur hún verið manneskjan sem hefur hjálpað mér að leita að mínu barni. Ég hef ekki þurft að biðja hana um það,“ segir Ingibjörg. Hún mæti bara og bjóði fram aðstoð sína.

„Þannig er María bara og þess vegna vil ég bara gera allt til þess að hjálpa henni og bið þjóðina um að hjálpa mér að hjálpa henni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×