Innlent

Höfðu sam­band við dönsku her­stjórnina á Græn­landi

Eiður Þór Árnason skrifar
Um borð í TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, í dag.
Um borð í TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, í dag. Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan leitaði ásamt áhöfn danska flughersins á hafsvæðinu um 140 sjómílum suðvestur af Reykjanesi í dag eftir að áhöfn einkaflugvélar taldi sig hafa séð neyðarmerki skotið á loft.

Áhöfnin á TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, var kölluð út þegar tilkynning barst um þetta á níunda tímanum í morgun. Þá var haft samband við dönsku herstjórnina á Grænlandi sem kallaði út eftirlitsflugvél frá danska flughernum. Einnig fóru tveir björgunarsveitarmenn á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar með áhöfn TF-SIF.

Frá aðgerðinni í dag.Landhelgisgæslan

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni sem segir hvorki skip né flugvél hafa sést á umræddu svæði í kerfum hennar.

„Þrátt fyrir það þótti brýnt að ganga úr skugga um að enginn væri í vanda staddur á svæðinu. Áhöfnin á TF-SIF setti upp leitarferla þegar hún kom á svæðið og leitaði í um fjórar klukkustundir. Leit danska flughersins stóð jafn lengi yfir. Leitarsvæðið var víðfeðmt, eða um 5500 ferkílómetrar,“ segir í tilkynningu.

Leitin bar ekki árangur og var henni hætt á fjórða tímanum í dag.

Frá aðgerðinni í dag.Landhelgisgæslan
Frá aðgerðinni í dag.Landhelgisgæslan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×