Körfubolti

Missti al­veg stjórn á skapinu en það skilaði sigri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Draymond Green og Steve Kerr stóðu í stappi.
Draymond Green og Steve Kerr stóðu í stappi. Lachlan Cunningham/Getty Images

Draymond Green missti algjörlega stjórn á skapinu og gekk inn í klefa eftir rifrildi við þjálfara Golden State Warriors, Steve Kerr. Rifrildið virðist hafa kveikt í Warriors því þeir unnu leikinn að lokum sannfærandi.

Eftir að Draymond missti boltann og Warriors gáfu svo frá sér tvær auðveldar körfur í þriðja leikhluta ákvað þjálfarinn að blása til leikhlés.

Þar skiptust Draymond og Kerr á einhverjum orðum, sem endaði með því að leikmaðurinn labbaði brjálaður burt og fór inn í klefa. Hann sneri síðan ekki aftur fyrr en seint í fjórða leikhluta og spilaði ekkert meira.

„Ég missti stjórn á skapinu og fannst best að forða mér bara“ sagði Draymond á blaðamannafundi eftir leik.

Rifrildið virðist þó hafa kveikt einhvern neista hjá Warriors því þeir voru fimm stigum undir en tóku 41-18 áhlaup eftir þetta stormasama leikhlé og unnu leikinn á endanum 120-97.

Steve Kerr sagði að Draymond hafi sjálfur ákveðið að fara inn í klefa, hann hafi ekki verið sendur þangað, og þess vegna hefði hann ekkert fengið að spila meira þó hann hafi snúið aftur.

Þeir voru báðir sammála um að erfa þetta atvik ekki við hvorn annan og gera meira mál úr þessu, enda ekki í fyrsta sinn og líklega ekki í síðasta sinn sem Draymond missir stjórn á skapinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×