Innlent

Mið­flokkurinn ekki undir­ritað siða­reglur og mæting sögð frjáls­leg

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, kallar eftir því að þingmenn mæti betur á fundi. Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir kveðst stolt af því að Miðflokkurinn hafi ekki undirritað siðareglur.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, kallar eftir því að þingmenn mæti betur á fundi. Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir kveðst stolt af því að Miðflokkurinn hafi ekki undirritað siðareglur. Vísir/Samsett

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, skorar á þingmenn að líta í eigin barm og rækta skyldur sínar gagnvart þinginu. Hún brást við umræðu stjórnarandstöðu um siðareglur Alþingis með því að benda á að ekki hafi allir þingmenn skrifað undir siðareglurnar auk þess sem hún vill meina að mætingu þingmanna á nefndarfundi sé ábótavant. Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, þingmaður Miðflokksins, segist stolt af því að þingflokkurinn sem hún tilheyrir hafi ekki skrifað undir siðareglur þingsins.

Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins gerðu siðareglur Alþingis að umræðuefni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær og kölluðu eftir afstöðu forsætisráðherra um það hvort hún teldi nýleg ummæli stjórnarliða standast siðareglur. Ása Berglind brást við þeirri umræðu í ræðu sinni um störf þingsins í dag.

„En nú er það svo að alþingismönnum ber ekki skylda til þess að undirrita siðareglur þingmanna. Og ég veit ekki betur en að hér sé heill þingflokkur sem kaus einmitt að sleppa því við upphaf þessa kjörtímabils,“ sagði Ása Berglind í ræðu sinni, en nefndi þó ekki neinn flokk á nafn. 

Muni aldrei undirrita siðareglur

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, þingmaður Miðflokksins, nýtti þó sína ræðu um störf þingsins til að upplýsa að hún væri stolt af því að þingflokkur hennar hafi ekki undirritað siðareglurnar.

„Ég get upplýst um það að það er þingflokkur Miðflokksins. Og mikið var ég ánægð og í raun og veru stolt í þessari viku að við hefðum ekki undirritað þessar siðareglur. Og ég mun ekki undirrita þessar siðareglur á mínu kjörtímabili hér. Af hverju? Vegna þess að ég held að það hafi bara allir séð í liðinni viku að þetta er tæki fyrir meirihlutann til að berja á minnihlutanum. Það er það sem siðareglurnar eru, ekkert annað. Þess vegna bara segi ég, ég er stolt af því að hafa ekki undirritað þetta,“ sagði Nanna Margrét.

Frjálsleg mæting á nefndafundi

Ása Berglind gerði mætingu þingmanna á nefndarfundi einnig að umræðuefni. „Hins vegar er þingmönnum skylt að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni, þar á meðal nefndafundi. Það hefur vakið athygli mína frá því að þing var sett í febrúar og á þessum tíma sem liðinn er síðan þá, hversu frjálslega margir þingmenn í þessari virðulegu stofnun líta fram hjá þeirri skyldu sinni. Sérstaklega í nefndunum sem eru annars mjög fyrirferðarmiklar í störfum okkar þingmanna,“ sagði Ása, en ummælunum var ekki beint sérstaklega að neinum flokki.

Það sé í gegnum nefndastörfin sem þingmenn rýni viðfangsefnin, hlusti á sjónarmið umsagnaraðila og vegi og meti ólíka hagsmuni. „Það er inni í nefndum sem mesta vinnan fer fram, langoftast í mesta bróðerni, ólíkt því sem á sér stað hér í þessum stól, sem minnir mig stundum meira á leikhús heldur en virðulega löggjafarsamkomu,“ sagði Ása.

Vissulega sé það svo að stundum þurfi þingmenn að gegna störfum á erlendri grundu á vegum þingsins, en það skýri ekki skort á mætingu í öllum tilfellum. „Mig langar því að nota tækifærið og hvetja þau sem láta sig heiður Alþingis varða að líta í eigin barm. Við erum á blússandi háum launum að vinna eitt af mikilvægustu störfum þessa lands, sem við vorum lýðræðislega kjörin til að sinna. Sýnum starfi okkar virðingu með því að rækta skyldur okkar, koma fram við hvort annað og ekki síst fólkið í landinu af virðingu,“ sagði Ása.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×