Skoðun

Hafa þjófar meiri rétt?

Hilmar Freyr Gunnarsson skrifar

Á undanförnum árum hefur þjófnaður orðið að sífellt meira vandamáli sem almenningur þarf að búa við. Þegar brotist er inn verður fólk fyrir eignatjóni, tilkynnir það til lögreglu – en oft virðist ekkert gerast. Í stað þess að taka á rót vandans virðist kerfið þróast í þá átt að tryggingafélög greiða út bætur. Þetta hljómar kannski sem lausn, en í raun er það bara tilfærsla á kostnaði: iðgjöld hækka, og við öll borgum fyrir afbrot þeirra sem brjótast inn og ræna okkur.

Þessi þróun hefur líka skapað heila starfsgrein í öryggismálum. Við kaupum fyrir talsverðar upphæðir öryggiskerfi, læsingar og öryggisþjónustu – allt til að verja okkur gegn þjófum. En af hverju erum við að verja okkur í stað þess að samfélagið takist á við vandamálin? Af hverju er ekki meiri áhersla á að stöðva þjófnaðinn fremur en að gera hann að kostnaðarliði á samfélaginu.

Lögreglan virðist ekki hafa mannafla né úrræði til að bregðast við. Hvaða skilaboð erum við að senda út þegar það er vitað að lögreglan getur ekki sinnt sínu hlutverki? Þeir sem brotist er inn hjá þurfa yfirleitt í kjölfarið að leggja í talsverða vinnu við að bæði að finna þjófinn sjálf og sanna eignarhald sitt á eigin dóti. Oft virðast þetta vera sömu aðilarnir sem ítrekað fara inn og Lögreglan þekkir en þjófar virðast hafa meiri rétt en fórnarlömbin. Við greiðum fyrir tjónið, við greiðum fyrir meira öryggi, og við greiðum hærri iðgjöld trygginga. Þjófarnir sleppa og halda sinni iðju áfram. Þetta er vítahringur sem þarf að rjúfa.

Lausnin er ekki fleiri myndavélar eða dýrari tryggingar. Lausnin er að endurhugsa forgangsröðun í löggæslu og hækka refsingar við þjófnaði. Þjófnaður á ekki að vera kostnaðarliður í samfélaginu.

Höfundur er byggingafræðingur og húsbyggjandi.




Skoðun

Sjá meira


×